Umboðsmaður barna hefur sett upp sérstaka upplýsingasíðu fyrir börn þar sem finna má svör við algengum spurningum barna um faraldurinn sem nú gengur yfir og hvernig brugðist er við honum. Upplýsingasíðan er hluti af nýrri heimasíðu embættis umboðsmanns barna sem er að finna á www.barn.is. Jafnframt leitar umboðsmaður barna eftir frásögnum frá börnum um reynslu þeirra og líðan vegna þeirra breytinga sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á daglegt líf barna, í skólum, tómstundum og á heimilinu.

Fjölbreyttar upplýsingar

Í þessari viku verður opnuð ný heimasíða umboðsmanns barna. Henni er ætlað að bæta aðgengi barna að embættinu með einfaldari leiðum til að senda fyrirspurnir og nálgast svör við algengum spurningum frá börnum.

Samhliða nýjum vef hefur embættið sett upp sérstaka upplýsingasíðu fyrir börn um kórónaveirufaraldurinn. Á tímum mikillar óvissu og ótta hjá börnum er mikilvægt að tryggja að þau hafi ávallt aðgang að vönduðum upplýsingum. Nú þegar hafa ýmsir sett fram aðgengilegt efni fyrir börn og er mikilvægt að hægt sé að nálgast það allt á einum stað. Hægt er að senda ábendingar um efni á vefsíðu embættisins.

Á síðunni er að finna fjölbreytt efni eins og hugmyndir að því hvernig börn og fjölskyldur geta tekist á við þær sérstöku aðstæður sem nú hafa skapast. Hér má nefna upplýsingar tengdar heimanámi, leikjum og því hvað börn og fullorðnir geta gert saman. Á síðunni er einnig að finna leiðbeiningar til fullorðinna um hvernig eigi að ræða við börn um þessi mál sem og leiðbeiningar til barna um rétt þeirra til stuðnings og upplýsinga.

Frásagnir barna

Í öllu starfi embættis umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í málefni og reynsluheim barna.

Veturinn 2009-2010 stóð umboðsmaður barna fyrir skólaverkefninu „Hvernig er að vera barn á Íslandi?“. Markmið verkefnisins var að búa til vettvang fyrir börn þar sem þeim gefst tækifæri til að tjá sig með þeim hætti sem þeim hentar best, um eigin reynslu og skoðanir. Nú blæs embættið öðru sinni til verkefnis þar sem lýst er eftir frásögnum barna af öllu tagi um það hvernig sé að vera barn á tímum kórónaveirunnar hér á landi. Hvaða áhrif hún hefur haft á líf þeirra og hvernig þeim tekst að takast á við þær breytingar sem orðið hafa á öllum þáttum daglegs lífs.

Umboðsmaður barna hefur því í samvinnu við KrakkaRÚV ákveðið að standa fyrir verkefninu „Áhrif kórónaveirunnar á líf barna“ og safna saman alls kyns frásögnum frá börnum um reynslu og líðan á þessum tíma. Þannig verður til mikilvæg samtímaheimild um leiðir barna til að takast á við samfélagsleg áhrif heimsfaraldurs og áður óþekktar aðstæður.