Tvær vikur eru fram að kjördegi. Það er langur tími í pólitík. Og líka stuttur. Langur tími fyrir þá sem kunna að hrasa. Stuttur tími fyrir þá sem hafa óljóst erindi.

En um hvað verður kosið? Málefni? Það er ekki víst. Það er meira að segja ólíklegt.

Hitt er öllu líklegra að kosið verði um nýja tegund stjórnar ellegar þá sömu sem setið hefur undanfarin fjögur ár, að kosningarnar snúist um breyttar áherslur eða sama gamla stjórnarfarið.

Þeirri stjórn sem setið hefur að völdum hefur verið legið á hálsi fyrir að vera kyrrsetustjórn, hvort sem það má kalla sanngjarnt eða ekki, en í öllu falli hafi hún engu viljað breyta í veigamestu álitamálum íslenskrar þjóðmálaumræðu, eins og helstu andstæðingar hennar orða það.

Og gott og vel.

En er þá sjálfgefið að aðrir breyti einhverju? Munu þeir hafa til þess kraft og úthald, svo og pólitískt hugrekki. Það er ekki sjálfgefið.

Eru ekki einmitt meiri líkur en minni á að annað samstarf flokkanna á löggjafarsamkundu landsmanna en það sem nú hefur haldið um taumana sitji við orðin tóm að afloknum kosningum. Og að efndir allra loforðanna verði soðnar niður í samkomulag svo margra flokka að ekkert verði úr aðgerðum.

Það eru líkindi til þess.

Vandi Alþingis hefur einkum verið sá á síðustu áratugum að fara ekki að vilja þjóðarinnar. Ekki í heilbrigðismálum. Ekki í málefnum öryrkja. Ekki í málefnum aldraðra. Ekki í menntamálum. Ekki í sjávarútvegsmálum. Ekki í landbúnaðarmálum. Ekki í samkeppnismálum. Ekki í neytendamálum. Ekki í alþjóðamálum. Ekki í innflytjendamálum. Ekki í mannréttindamálum.

Og svo mætti áfram telja.

Niðurstaðan hefur miklu frekar verið marflöt málamiðlun.

Íslensk pólitík hefur nefnilega löngum verið á sjálfstýringu embættismannakerfisins og opinberra stofnana sem leggja bæði línurnar og laga sig að þeim.

Pólitíkinni hefur sjaldnar en ekki tekist að brjóta niður þá múra sem reistir hafa verið austan Arnarhóls og hafa verið alþingismönnum illkleifari en Herðubreið og Heljarkambur.

Pólitíkin hefur ráðið of litlu.

Og Alþingi hefur koðnað niður inni í sölum nefndafundanna þar sem embættismannasamkundan hefur svæft það mörg hver síðdegin. Viljinn til að breyta hefur vikið fyrir óbærilega löngum geispa.

Kosningarnar eftir tvær vikur snúast öðru fremur um það hverjir geta haldið vöku sinni – og sofna ekki á verðinum. Eða um geta þeirra sem engu vilja breyta.