Dagur Norðurlandanna er 23. mars, en þann dag, fyrir 58 árum undirrituðu norrænu ríkin Helsinkisamkomulagið sem æ síðan hefur gilt sem „stjórnaskrá“ norræns samstarfs. Norðurlöndin hafa á liðnum áratugum verið ótrúlega samstíga í þeim framförum sem löndin öll hafa notið og heimsbyggðin horfir nú til í vaxandi mæli. Lykillinn er norræna velferðarmódelið og norræn samvinna, þar sem Norðurlöndin, með formlegum og skipulegum hætti, bera saman bækur sínar, læra hvert af öðru og takast sameiginlega á hendur mikilvæg verkefni sem gagnast þeim öllum. Árangurinn talar sínu máli.

Norðurlöndin eru þekkt fyrir mikla velmegun, frjálslyndi, jafnrétti, lýðræðislega þáttöku, öryggi og jöfnuð. Sameinuð eru Norðurlöndin nú meðal tíu stærstu efnahagsstórvelda heimsins og meðal þeirra fimm stærstu í Evrópu. Norrænt samstarf hefur svo sannarlega skilað sínu.

Ný heimsskipan

Að þessu sinni er dags Norðurlandanna minnst í skugga kórónuveirunnar, heimsfaraldurs sem skall á, eins og þruma úr heiðskíru lofti og mun ekki láta nokkurt samfélag ósnortið. Það hriktir í stoðum sem áður töldust traustar, nýir starfshættir og lausnir ryðja sér til rúms og sjaldan eða aldrei hefur mikilvægi samstarfs og samstöðu þvert á landamæri verið augljósara.

Þessi sannindi eiga ekki bara við um kórónuveiruna og viðbrögðin við henni, heldur blasir við að flestar af stærstu áskorunum samtímans virða engin landamæri. Hvernig eigum við annars að bregðast við vaxandi straumi flóttafólks í heiminum? Hvernig getum við tryggt að ný og metnaðarfull Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verði að veruleika? Hvað fær mannkynið best gert til að stöðva lífshættulega hlýnun jarðarinnar? ... og hvernig getum við séð til þess að okkar norrænu velferðarsamfélög verði áfram leiðandi í heiminum þegar litið er til hagsældar, efnahagslegs jafnaðar, mannréttinda og lífsgæða almennt. Svarið liggur í stórauknu samstarfi þvert á landamæri og ekki síst samstarfi Norðurlandanna, bæði á heimavelli og á alþjóðavettvangi.

Norrænt sambandsríki

Þótt margt hafi heppnast vel við þróun norræns velferðarsamfélags, er þó komið að tímamótum. Aðstæður í samtímanum krefjast stærri skrefa. Norrænt samstarf þarf nýja stjórnarskrá, nýjan samstarfssáttmála sem tryggir skilvirkari samvinnu, bætt lífsgæði og aukinn slagkraft Norðurlandanna til að takast á við þau stóru verkefni sem heimsbyggðin stendur nú frami fyrir.

Sameiginlegar bindandi ákvarðanir, samnorrænar lykilstofnanir, sameiginlegt regluverk á mikilvægum sviðum og norrænn ríkisborgararéttur eru allt úrræði sem gætu stóraukið möguleika okkar til að takast á við verkefni framtíðarinnar, en rúmast illa innan þess ramma sem núverandi samstarf byggist á.

Skrefið áfram, þarf þó ekki að vera neitt risaskref - og í raun er vilji og kjarkur stjórnmálamanna allt sem þarf. Vilji einstaklinganna - þjóðanna sem Norðurlöndin byggja liggur hinsvegar fyrir – ekkert í utanríkisstefnu Norðurlandanna byggir á eins öflugum stuðningi íbúanna og norrænt samstarf. Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri hefur komið fram nær órofa stuðningur við náið norrænt samstarf. Breytt heimsskipan og þau krefjandi verkefni sem heimsbyggðin stendur frami fyrir krefjast þess, að þessum eindregna vilja verði nú umbreytt í nýjan veruleika – norrænum samfélögum og heimbyggðinni allri til heilla. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Höfundur er formaður Norræna félagsins á Íslandi og forseti sambands norrænu félaganna.