Þriðjudaginn 12. nóvember svipti Kveikur hulunni af vafasömum starfsháttum íslenska stórfyrirtækisins Samherja í Namibíu. Útgerðarrisinn hefur síðustu ár greitt háttsettum mönnum í Namibíu og venslamönnum þeirra meira en milljarð króna til að komast yfir eftirsóttan kvóta. Á sama tíma bárust þau tíðindi frá Alþingi að veiðileifagjöld myndu lækka á næsta ári vegna versnandi afkomu útgerðar og yrðu aðeins 5 milljarðar samanborið við rúma 11 milljarða fyrir tveim árum. Þá hefur komið fram að Samherji og tengd félög ráði yfir 15% aflaheimilda þrátt fyrir að með lögum megi tengdir aðilar ekki eiga meira en 12% aflaheimilda. Hvernig má þetta vera? Hver var aðkoma Samherja og Samtaka í sjávarútvegi að endurskoðun laga nr. 145 2018 um veiðigjald? Lög sem fela í sér að því lægra verð sem útgerð fær fyrir fisk sem seldur er til tengdra aðila innanlands eða utanlands þeim mun lægra verður auðlindagjaldið. Það má ljóst vera að stórfyrirtæki eins og Samherji og Brim sem ráða yfir allri virðiskeðju sjárvarafurða, veiðum, vinnslu, markaðsetningu og sölu, jafnvel í gengnum erlend fyrirtæki, ráða því hvar ágóðinn kemur fram. Ágóðann láta þau ekki koma fram í veiðinni sem ber veiðileyfagjald sem er háð afkomu. Ágóðinn kemur fram í þáttum sem ekki bera veiðigjald: vinnslu, markaðsetningu og sölu innanlands eða erlendis. Lög um veiðigjald eru ótæk og því eru hér lögð drög að nýrri löggjöf sem takmarkar stærð útgerða en skerpir á markaðslögmálunum og veitir svigrúm til þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna. Áætla má að veiðiheimildir séu um 400 milljarða króna virði og árleg innköllun og sala á 5% veiðiheimilda eins og hér er lagt til gæfi 20 milljarða afgjald í ríkissjóð.

Almennt um auðlindagjöld

Það er vilji meirihluta þjóðarinnar að tekið sé gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar þar á meðal fiskveiði- og orkuauðlindum. Þeir sem nota auðlindirnar greiði afnotagjald sem renni í ríkissjóð til sameiginlegra nota. Hér eru sett fram tillaga um þær reglur sem gildi um veiðigjald af fiskveiðiauðlindinni.

Ný lög um veiðigjald

Stjórn fiskveiða verði að mestu óbreytt frá því sem nú er en innifeli eftirfarandi breytingar og auðlindagjald. Fyrir afnot af sameiginlegum fiskistofnum þjóðarinnar greiðist:

a) Árlega skal hver eigandi veiðiheimildar greiða fyrir hvert kíló: Fyrir kolmunna skulu greiddar tvær krónur, fyrir makríl og síld 5 krónur og fyrir aðrar tegundir 10 krónur.

b) Ríkið innkallar árlega einn tuttugasta (5%) allra aflahlutdeilda og selur í áföngum innan fiskveiðiársins til hæstbjóðanda á markaði.

Þessi hæga og fyrirsjáanlega innköllun skapar stöðugleika fyrir útgerðir og fiskvinnslu. Þeir lögaðilar sem standa sig vel í rekstri geta haldið í aflahlutdeild sína og jafnvel aukið við hana með því að bjóða í og kaupa aflahlutdeild á markaði af öðrum útgerðum eða ríkinu.

Samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila má ekki nema meira en 10% (nú 12%) af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla.

Með því að selja ekki allar innkallaðar aflahlutdeildir skal ríkið á þrem árum auka hlut sinn í veiðiheimildum uns þær nema 15% af heimild hverrar tegundar. Þessar óúthlutuðu heimildir verði boðnar út í áföngum mánaðarlega sem heimild innan fiskveiðiársins í þeim tilgangi að skapa opinbert markaðsverð á skammtímaheimildum og heimildir fyrir meðafla. Þetta aukna framboð á heimildum innan fiskveiðiársins mun lækka verð á þeim og auðvelda nýjum aðilum að hefja útgerð.

Með skilyrðum má til árs úthluta allt að þriðjungi af heimildum ríkisins (5%) til landsvæða sem standa höllum fæti til þess að tryggja að innan hvers svæðis sé ein öflug fiskvinnsla. Þessi úthlutun taki mið af sérstöðu svæðisins og þeim fiskimiðum sem næst eru þannig að fiskvinnslan hafi aðgang að þeim fisktegundum sem hagkvæmastar eru í vinnslu á svæðinu. Ennfremur má til árs úthluta allt að 5% til strandveiða gegn gjaldi. Afganginn skal bjóða út innan ársins eins og að ofan greinir.

Greinargerð um auðlindagjöld af sameiginlegum fiskistofnum þjóðarinnar

Samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland átti mikinn þátt í að móta, stjórna strandríki þeim auðlindum sem finnast innan 200 sjómílna frá strönd þeirra. Í ljósi þessa er eðlilegt að strandríkið fái arð af þessum eignum sínum með því að þeir sem nýta auðlindir, á eða yfir hafsbotninum, greiði af þeim afnotagjald.

Lagt er til að auðlindagjaldið verði með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verður greitt árlega fyrir hvert veitt kíló innan veiðiársins. Í öðru lagi innkallar ríkið árlega einn tuttugasta af varanlegum veiðiheimildum (aflahlutdeild) og selur aftur í áföngum til hæstbjóðanda. Varanleg veiðiheimild er nauðsynleg til þess að viðhalda stöðugleika í útgerð svo hægt sé að fjárfesta í og endurnýja skip, fiskvinnslur og búnað. Tuttugu ár er um það bil sá tími sem tekur að meðaltali að afskrifa aðrar eignir útgerðar svo sem hús, skip, vélar og tæki. Það gildi því sambærilegar afskriftareglur um aflahlutdeildir eins og aðrar eignir útgerða.

Höfundur er rekstrarhagfræðingur og eðlisfræðingur.