Straumur vatnsfalla getur breyst frá einum tíma til annars. Stundum færist þungi straumsins frá öðrum bakka yfir á hinn. Breytingar af því tagi geta haft mikil áhrif á umhverfið.

Ég minnist samtala á bökkum Markarfljóts við bændur í Landeyjum og undan Eyjafjöllum. Þeir þekktu þessa miklu krafta náttúrunnar, sem brutu niður gróið land og eyðilögðu landnytjar.

Flökt eða vísir að öðru meira?

Allir vildu draga úr sveiflum straumsins. Bændurnir vildu stöðugleika. Þeir sem bjuggu austan megin gátu að vísu verið rólegir meðan fljótið djöflaðist vestan megin. En þeir vissu að eftir einhverja áratugi myndi straumurinn sveiflast yfir á bakkann þeirra megin. Þess vegna höfðu allir sömu sýn.

Oftast er erfitt að greina fyrstu vísa að slíkum breytingum. Lítið frávik getur verið flökt, en líka upphaf að meiri varanlegum breytingum.

Þessi gömlu samtöl við bændur um lögmál Markarfljóts komu upp í hugann síðasta laugardag þegar ég las sameiginlega grein Árna Sigurjónssonar formanns Samtaka iðnaðarins og Friðriks Jónssonar formanns BHM í Morgunblaðinu.

Grein þeirra ber yfirskriftina: „Sókn nýsköpunar og hugverkaiðnaðar – þar getum við verið sammála.“ Hún virkar í fyrstu eins og klisja úr kosningabaráttunni. En það er tvennt í greininni, sem bendir til þess að hún gæti verið eitthvað meira en klisja eða flökt í straumfalli dægurumræðu, jafnvel vísir að öðru meira.

Greining vandans

Fyrra atriðið er sameiginleg sýn þeirra á eðli efnahagsvandans. Þeir byrja greinina á að skilgreina kjarna hans á mjög einfaldan og skýran hátt:

n „Á þessari öld hefur íslenska hagkerfið sveiflast þrisvar sinnum meira en Evrópulöndin að meðaltali.

n Ísland hefur auk þess gengið í gegnum mun dýpri og langvinnari efnahagslægðir á síðustu 12 árum, en þau lönd sem við berum okkur helst saman við.

n Nú, á árinu 2021, benda nýjustu spár greiningaraðila til þess að Ísland nái framleiðslustigi fyrir heimsfaraldur um ári á eftir helstu viðskiptalöndum.“

Okkar hagkerfi sveiflast margfalt meira en önnur, sem við jöfnum okkur til. Kreppurnar verða dýpri. Og við erum lengur en aðrar þjóðir að ná okkur á strik. Erum við sátt við þetta?

Þögnin rofin

Annað er að báðir eru höfundar nýir forystumenn á vinnumarkaði. Þeir virðast báðir skilja að grundvallarbreytinga er þörf og eru líklegir til að hafa metnað til þess að sjá þær gerast.

Síðastliðin fimm ár hafa forystumenn SA og ASÍ haft mjög lítinn áhuga á að ræða grundvallarviðfangsefnið varðandi sveiflurnar í þjóðarbúskapnum. Nú segja þessir tveir nýju forystumenn: Þar getum við verið sammála.

Sameiginleg sýn á hindrunum, sem ryðja þurfti úr vegi, var kjarninn í þjóðarsáttinni fyrir þrjátíu árum. Þessi hugsun var komin aftur á flug en var svo kæfð á ný fyrir nokkrum árum. Skammtíma sérhagsmunir hafa trúlega ráðið því beggja vegna.

Pólitíkin vildi líka losna við umræður um grundvallarviðfangsefni. Síðustu fjögur ár hefur hún verið of veik til að takast á við þau.

Þessir tveir nýju forystumenn á vinnumarkaðnum eru ekki að segja eitthvað, sem enginn hefur sagt áður. En þeir eru að endurvekja sameiginlega sýn á vanda, sem legið hefur í þagnargildi um hríð.

Einn græðir annar tapar

Það er margt líkt með kröftum stórfljótsins og lögmálum efnahagslífsins.

Rétt eins og straumskipti fljótsins brýtur nytjaland til skiptis beggja vegna, valda sveiflur efnahagslífsins því að einn hluti hagkerfisins græðir í skamman tíma meðan annar tapar. Launþegar í einn tíma og fyrirtækin í annan. Svo snúast leikar við.

Það vantar þá sem tala af hyggindum bændanna við Markarfljót. Grein formanna SI og BHM er tilraun til að fylla upp í tómarúm. Svo reynir á úthaldið, og ekki síður á hitt, að fá fleiri til að ganga með.

Ríkisstjórnin tekur örugglega undir fyrirsögn þeirra félaga í nýrri stefnuyfirlýsingu. Hún hefur hins vegar í fjögur ár verið í afneitun gagnvart grundvallarviðfangsefninu. Hætt er því við að alvara greinarinnar verði ekki nefnd.

Það er því brekka fram undan.