Maður verður að rækta garðinn sinn. Þessi lokaorð Birtíngs eiga við um svo margt sem við gerum, sem einstaklingar og samfélag. Samfélög rækta garðinn sig með því að fjárfesta í innviðum eins og tungumáli, jarðgöngum, menntun, heilbrigði, vegum, menningu og listum. Það skilar sér í meiri lífsgæðum og meiri hamingju, enda vex flest sem skiptir máli upp en ekki niður. Við, mannfólkið, ræktum aðallega okkur sjálf en vonandi líka annað fólk og umhverfið.

Þau sem eiga rætur í sveitinni verða stundum óþreyjufull á vorin. Þá hillir loksins undir daga þar sem hægt er að reyta arfa, grafa í mold, bera á, horfa á ánamaðka losa um moldina, hlusta á fuglana syngja og, síðast en ekki síst, rækta mat. Í því felst einhver óútskýranleg ánægja. Sveitakonan í mér tengir einfaldlega betur við ræktun þess sem hægt er að borða, þó vitanlega sé hægt að nota sum skrautblóm út á salat, ef vill.

Þegar við ræktum garðinn okkar ræktum við ekki bara matinn sem við borðum, blómin sem við njótum og líkamann sem við notum til verksins. Við ræktum sálina, hvílum hugann og náum einhverri magnaðri tengingu við núið. Ef þú varst í þann mund að borga fyrir rafrænt núvitundarnámskeið bendi ég hér með á að það er ókeypis að reyta arfa. Fyrir lengra komna mæli ég með moltugerð, enda fátt fallegra en að horfa á matarafganga rotna og sameinast jörðinni á nýjan leik. Þau allra hörðustu láta sig dreyma um að eignast greinakurlara, nauðsynlegan staðalbúnað harðkjarna garðyrkjukvenna.