Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Besta dæmið um slíkt eru vinsælar kvikmyndir sem gerðar voru fyrir 20-30 árum þar sem framtíðin sem við lifum núna var hin furðulegasta. Bílar flugu og fólk borðaði pillur í stað matar. Enginn virtist sjá fyrir samtengingu tölva um heim allan eða ofurnotkun símtækja með skjái og þær þjóðfélagsbreytingar sem því hafa fylgt.

Mannkynið er nefnilega einkar sjálfhverft og trúir því statt og stöðugt að þeir tímar sem það lifir hverju sinni séu nánast endastöð samfélagslegs þroska. Framtíðin muni því lítið breytast, nema kannski verða aðeins tæknilegri. Þannig fannst fólki á miðöldum örugglega álíka sjálfsagt að brenna fólk lifandi fyrir meinta galdra og okkur þykir í dag eðlilegt að láta stærstu fyrirtæki heims safna saman nánast öllum þeim upplýsingum sem þeim svo sýnist um okkur. Hvað við skoðum eða kaupum á Internetinu og hverja við umgöngumst.

Næst þegar þú horfir á barnið þitt á YouTube skaltu hafa í huga að samtímis eru öflugustu tölvur í heimi knúnar af gervigreind beintengdar við heila þess. Þeirra eina verkefni er að halda áhorfinu áfram með stöðugum uppástungum um ný myndbönd og auglýsingar. Sama á við um samfélagsmiðla sem eru nánast allir í eigu sama fyrirtækis. Fyrirtækis sem hefur sýnt að því er skítsama um afleiðingar falsfrétta og misnotkun á gögnum hvar sem það stingur niður fæti. Ég ætla því að spá því að í framtíðinni verði ofangreind starfsemi takmörkuð verulega og réttur okkar sem foreldra og neytanda verði tryggður, þannig að við stjórnum því sjálf hvernig eða hvort tæknifyrirtækin safna um okkur gögnum. En þangað til.