Áhugavert er að fylgjast með þeim miklu breytingum sem eru að verða við nyrsta haf Rússlands. Mikil nútímavæðing á sér stað í rússneskum sjávarútvegi með kröfum um betri fiskvinnslutækni og afkastagetu fiskiskipa og fjárfestingarátaki til framþróunar sjávarútvegs og fiskeldis. Íslensk tæknifyrirtæki á heimsmælikvarða sem bjóða vinnslutækni sjávarútvegs ættu að róa á þann hafsjó tækifæra.


Loftslagsbreytingar við nyrsta haf


Rússneska landsvæðið nær yfir um helming norðurskautssvæðis heimsins. Alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum eru æ sýnilegri: Veðuröfgar, ný hitamet slegin, sífreri og hafís hopar.

Rússar hafa markað stefnu um nauðsynlegar aðgerðir til að hægja á þessum breytingum. Stjórnvöld hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar á borð Parísarsamkomulagið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Miklar breytingar á norðurslóðum þýða einnig tækifæri fyrir Rússa. Fyrir voru þessi svæði einangruð af ís og harðneskjulegu veðurfari en nú hopar ísinn æ meir til norðurs. Ný landsvæði rík af auðlindum opnast, sem og Norðaustursiglingaleiðin sem lengst af hefur verið ísilögð og ófær. Skip geta nú siglt þessa leið um helming ársins.


Norðurslóðastefna Rússa


Norðurslóðastefna Rússa sem tók gildi árið 2008 lýtur að fjórum þjóðarhagsmunum þeirra: Í fyrsta lagi er nýting auðlinda og tækifæra sem koma til vegna breytinga á norðurslóðum. Í öðru lagi er árangursrík efnahags- og félagsþróun sem tekur tillit til einstakrar náttúru heimskautasvæðisins. Í þriðja lagi að tryggja frið og samvinnu. Í fjórða lagi að nýta til fulls þau tækifæri sem opnast með Norðaustursiglingaleiðinni.

Framtíð Rússa liggur að miklu leyti á norðurslóðum. Þar er um fimmtungur rússnesks landsvæðis. Þaðan kemur um fjórðungur útflutnings Rússa og þar er um fimmtungur allrar iðnaðarframleiðslu landsins.

Vegna þessa hafa Rússar ráðist í margvíslegar aðgerðir til að endurbyggja innviði við nyrstu höf sem margir voru yfirgefnir fyrir 20-25 árum. Á sama tíma vilja Rússar styrkja yfirráð sín á norðurslóðum, meðal annars til að tryggja heildaröryggi Norðaustursiglingaleiðarinnar.


Nútímavæðing sjávarútvegs


Sjávarútvegstækni í Rússlandi hefur löngum þótt standa samkeppnisþjóðum að baki. Stór hluti fiskiskipa var smíðaður á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Meðalaldur þeirra er um og yfir 30 ár og því komin yfir áætlaðan nýtingartíma. Að sama skapi er fiskvinnslutækni að miklu leyti úr sér gengin. Þrýstingur er því mikill á að smíða nýrri og betri fiskiskip og stóraukna fjárfestingu í vinnslutækni á sjó og í landvinnslu, sem og innviðum þeim tengdum.

Rússnesk stjórnvöld kynntu árið 2009 aðgerðir til endurbóta í sjávarútvegi þar sem horft var til ársins 2020. Meginmarkmið var sjálfbærni og endurheimt fiskistofna ásamt umtalsverðri uppbyggingu fiskeldis. Undir merkjum aukinnar samkeppnishæfni yrðu Rússa leiðandi í fiskveiðum.


Hærra tæknistig vinnslu og flota


Það kallaði á þróun frá hráefnisútflutningi til meiri verðmætasköpunar sem knúin yrði áfram með nýsköpun á virðiskeðjum og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Hækka skyldi tæknistig fiskvinnslu og fiskiskipaflotans í innlendum skipasmíðastöðvum. Byggja átti upp innviði fyrir fiskvinnslu sem og fyrir þjónustu við fiskiskipaflotann. Styrkja skyldi fiskifræði og sjávarútvegstækni og þjálfa hæft starfsfólk. Auka átti skilvirkni fiskveiðistjórnunar ríkisins, styrkja reglu- og stofnanaumhverfi, ýta undir hvata til atvinnustarfsemi og fjárfestinga í sjávarútvegi. Hvatt var til alþjóðlegt samstarfs.

Íslensk tæknifyrirtæki sem þjónusta sjávarútveg ættu að sækja hlutdeild í þeirri miklu nútímavæðingu sem á sér stað í rússneskum sjávarútvegi.

Þessi stefna var metin og endurskoðuð árið 2015. Í ljós kom að einungis fjórðungur fiskiskipaflotans hafði verið endurnýjaður. Ný endurskoðuð metnaðarfull stefna miðar við árið 2030. Meiri áhersla er á atvinnusköpun, lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa, fæðuöryggi og lýðheilsusjónarmið. Auka þyrfti framleiðni vinnuafls og hagnað sjávarútvegsfyrirtækja. Heildarframlag sjávarútvegs til landsframleiðslu á að auka um fimm prósent á ári.


Krafa um betri fiskvinnslutækni


Megináhersla er á nútímavæðingu sjávarútvegs, innviði, fiskvinnslu sem og fiskiskip. Þetta kallar á aukna framleiðslu sjávarafurða, betri fiskvinnslutækni og afkastagetu fiskiskipa, fjárfestingarátak til framþróunar sjávarútvegs og fiskeldis.

Ýmsir hvatar styðja við þessa stefnu. Útgerðum býðst viðbótarkvóti gegn smíði nýrra fiskiskipa. Niðurstaðan er að fá ef nokkur lönd uppfæra flota sinn hraðar en Rússar. Það er þrátt fyrir tímabundnar efnahagsþrengingar Rússa. Dagblaðið Financial Times greinir til að mynda frá því í nóvember að rússneska rúblan hafi á árinu fallið um 23 prósent miðað við bandaríkjadollar.


Stöðufundur með Pútín


Nýverið var greint frá vinnufundi Vladimirs Pútín, forseta Rússlands, og Ilya Shestakov, yfirmanns sjávarútvegsmála Rússneska sambandsríkisins. Stjórnvöld birta á netinu orðrétt samtal þeirra.

Shestakov sagði sjávarútveg landsins vera efnahagslega sterkan og hann skipi nú þriðja sæti yfir stærstu atvinnugreinarnar á eftir fjármálastarfsemi og námuvinnslu. Hann spáði því að ársafli landsins færi yfir fimm milljónir tonna. Að auki væri vöxtur fiskeldis mikill. Í ár sé gert ráð fyrir 17 prósenta aukningu fiskeldis, framleiðsla á laxi tvöfaldist og verði 100 þúsund tonn.

Hann greindi frá fjárfestingar­áætlun stjórnvalda: Þegar hefði verið tilkynnt um smíði 107 skipa. Alls eru það 56 skip, sem smíðuð verða innan ramma uppboðs á krabbaveiðum, auk smíði 35 annarra skipa. Afgangurinn er áætluð smíði sem er hluti af stuðningsaðgerð iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Af þessum 107 skipum hafa fjögur þegar verið afhent viðskiptavinum og ellefu verið sjósett.

Shestakov sagði að auk þeirra ellefu fiskvinnsluverksmiðja á landi sem byggðar hafa verið, geri áætlanir ráð fyrir uppbyggingu 25 til viðbótar.


Hafsjór tækifæra


Það liggja mörg tækifæri fyrir þá sem vilja taka þátt í að nútímavæða rússneskan sjávarútveg. Íslensk tæknifyrirtæki sem þjónusta sjávarútveg á borð við Völku, Marel, Frost, Héðin, Vöku, Hampiðjuna, Naust Marine, Rafeyri, Samey, Slippinn, Skagann3X og fleiri, hafa sýnt að þau eru á heimsmælikvarða þegar kemur að vinnslutækni í sjávarútvegi. Þau ættu að sækja hlutdeild í þeirri miklu nútímavæðingu sem á sér stað í rússneskum sjávarútvegi. Slíkt kallar á þor, þolinmæði og þekkingu. Þeir fiska sem róa.

Höfundur er viðskiptalögfræðingur frá Alþjóðastofnun rússneska utanríkisráðuneytisins við Moskvuháskóla, Berkeley LL.M, og MBA Háskólanum í Reykjavík.