Ungur drengur gekk ég þungarokkinu á hönd og varð mikill öfgamaður í metali og hafnaði allri annari tónlist. Með tímanum náðu þó örfáar sakbitnar sælur að snerta stálhjartað. Væri ég í einrúmi gerðist það meira að segja að ég hækkaði í útvarpinu þegar ég heyrði ákveðna smelli með Depeche Mode eða The Cure svo dæmi séu tekin. Síðar lét ég af þessu barnslega óöryggi og opnaði hjarta mitt fyrir allri tónlist kinnroðalaust.

Nú þegar geisladiskarnir eru komnir í geymslu og ég fer í gegnum Spotify staldra ég stundum við áðurnefndar sakbitnar sælur, enda staðreynd að engin tónlist á sama stað í hjarta okkar og sú sem við tókum inn fyrir tvítugt. Það er líka magnað hvernig sum tónlist getur hreiðrað um sig í undirmeðvitundinni og kallað fram sterkar tilfinningar í hvert sinn sem maður heyrir ákveðið lag.

Lagið Cut Here með hljómsveitinni The Cure er eitt þessara laga. Það hverfist um fund söngvarans Robert Smith og gamals vinar, sem svipti sig lífi skömmu síðar. Það fjallar um augnablikið sem skóp síðustu samvistir þeirra og það að Smith hafði ekki tíma til að setjast niður vegna anna sem engu máli skiptu. Síðasta faðmlagið þegar vinurinn tók óvenjufast utan um Smith og svo óendanlegan söknuð og eftirsjá.

Við erum öll upptekin og eigum flest svona augnablik sem eru full af trega og söknuði. Þegar við hefðum getað hringt til baka eða gefið okkur smá tíma í samskonar aðstæðum sem aldrei geta komið aftur. Höfum þetta í huga og gefum okkur tíma næst þegar við hittum einhvern sem okkur þykir raunverulega vænt um. Ef það er ekki tími fyrir kaffibolla þá allavega fast faðmlag. Og lagið heitir Cut Here og er á Spotify.