Skoðun

Nú þurfa stjórnvöld að standa sig!

Undanfarna daga hef ég fylgst með fréttaflutningi vegna hugsanlegrar uppsagnar á rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við sjúkraþjálfara og sérgreinalækna. Nýtt greiðsluþátttökukerfi sem sjúkraþjálfarar eru hluti af tók gildi 1. maí á síðasta ári. Nú níu mánuðum seinna er svo komið að fjármagn skortir og þá á úrræðið að vera að segja samningnum upp. Heilbrigðisráðherra hefur beðið SÍ að bíða með það þar til velferðarráðuneytið hefur tekið afstöðu „til tillagna um nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir, sbr. áform um samdrátt í ríkisútgjöldum“ eins og segir á vef SÍ.

Afsakið, vorum við ekki á annarri leið?

Það verður sorgleg niðurstaða og ekkert annað en óyndisúrræði, verði ákveðið að takmarka möguleika fólks til sjúkraþjálfunar. Það sem gerðist þegar nýtt greiðsluþátttökukerfi tók gildi var að t.d. örorku- og ellilífeyrisþegar höfðu efni á sjúkraþjálfun og endurhæfingu og nýttu sér því þá heilsubót sem loksins var orðin valkostur fyrir marga. Aukningin hefði því ekki átt að koma á óvart.

Viðurkennt er og vitað að sjúkraþjálfun er ódýr í samanburði við það sem gerist ef fólk neitar sér um þetta úrræði. Í ljósi þess ættu stjórnvöld að leggja ofuráherslu á að halda samningum við SÍ – án takmarkana, þar sem öruggt er að það mun skila sér í þjóðhagslegri hagkvæmni. Að ógleymdum þeim jákvæðu áhrifum sem úrræði á borð við þetta hefur á lífsgæði fólks.

Ég hef verulegar áhyggjur af að stjórnvöld ákveði að takmarka aðgang að sjúkraþjálfun með afar slæmum afleiðingum fyrir þá sem þurfa á þessu að halda en hafa ekki efni á því nema með kostnaðarþátttöku ríkisins.

Þetta er grafalvarlegt mál því ef stjórnvöld ætla örorkulífeyrisþegum með skerta starfsgetu að fara í auknum mæli út í atvinnulífið hlýtur sjúkraþjálfun og endurhæfing að vera partur af því að fólk haldi heilsu til að sinna atvinnu.

Eins og staðan er í dag eru skerðingar vegna atvinnutekna þannig að örorkulífeyrisþegi getur verið í þeirri stöðu að fá ekkert í vasann af laununum heldur renna launin beint til ríkisins í formi skatta og skerðinga. Örorkulífeyrisþeginn á því örugglega ekkert afgangs til að borga sjúkraþjálfun sem hann þó sannarlega þyrfti að nota til að geta haldið líkamlegri heilsu eins og kostur er.

Dæmið er ekki flókið og skora ég á stjórnvöld að vera nú snjöll, marka afgerandi stefnu varðandi heilbrigði þjóðarinnar. Það að takmarka ódýra þjónustu sem nýtist mörgum verður eingöngu til að búa til vaxandi þörf fyrir enn dýrari úrræði annars staðar í heilbrigðiskerfinu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Af bruðli
Ólöf Skaftadóttir

Skoðun

Heilbrigðiskerfi þjóðarinnar
Kolbeinn Óttarsson Proppé

Skoðun

Gámastíll og græðgisvæðing
Magnús Jónsson

Auglýsing

Nýjast

Börnin sem deyja
Bjarni Karlsson

Bílabylting
Kjartan Hreinn Njálsson

Meiri einokun takk!
Þorsteinn Víglundsson

Íslensku trixin II
Bolli Héðinsson

Gerum lífið betra
Ágúst Ólafur Ágústsson

Fýlukast
Kolbrún Bergþórsdóttir

Auglýsing