Á mánudag kynnti Bandaríkjaforseti einn stærsta björgunarpakka Bandaríkjanna nokkurn tíma í húsnæðismálum. Það er nefnilega kreppa, fólk hefur ekki efni á að leigja, kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn og viðvarandi skortur er á viðunandi húsnæði. Þetta kallar á mikil og skjót viðbrögð. Staða mála minnir á Ísland, hér er leigan allt of dýr, fólk kemst ekki inn á eignamarkaðinn og viðvarandi skortur er á húsnæði. Stóri pakkinn frá íslenskum stjórnvöldum hefur eitthvað látið bíða eftir sér en neyðin hefur verið ljós um langan tíma. Hátt húsnæðisverð sviptir fólk launahækkunum og lífsgæðum og staðan fer síversnandi með aukinni verðbólgu og hækkun vaxta.

Byggjum á því sem hefur gengið vel

Það má ætla að fljótlega dragi til tíðinda í húsnæðismálum en það var ánægjulegt að sjá áherslur í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga á húsnæðismál enda eitt stærsta lífskjaramálið. Ríki og sveit þurfa að taka höndum saman ekki seinna en í gær og það mun ekki standa á verkalýðshreyfingunni að ganga til samstarfs í öllum góðum tillögum. Þar verður að byggja á því sem hefur reynst farsælt hingað til, stuðningi við fyrstu kaupendur og áherslu á óhagnaðardrifnar lausnir, þannig að hagræði í uppbyggingu skili sér raunverulega í húsnæðisöryggi.

Efst á blaði nýrra meirihlutasáttmála

Ég brýni það forystufólk sem nú stendur í meirihlutaviðræðum að setja húsnæðismálin efst á blað og hafa þau sem útgangspunkt í þeim sáttmálum sem fljótlega fara að líta dagsins ljós. Annað væri undarlegt svo ekki sé meira sagt miðað við tóninn síðustu vikur. Eftir fjögur ár verður árangur sveitarstjórnarfulltrúa mældur að stórum hluta til eftir því hvernig til hefur tekist í uppbyggingu húsnæðis.

Húsnæði – fyrir fólk en ekki fjármagn.