Nú þegar 2019 er gengið í garð sjáum við marga vini og ættingja fara á samfélagsmiðla til að segja öllum hvernig nýja árið þeirra muni verða og hvaða breytingar þau vilja í sínu lífi. Á sama tíma hafa þegnar út um allan heim horft á leiðtoga sína halda svipaðar ræður um hvaða nýju stefnur ætti að taka. Katrín Jakobsdóttir sagði Íslendingum að stjórnvöld ættu að tryggja kjarabætur fyrir almenning og að við gætum öll lagt okkar af mörkum. Meira að segja Kim Jong Un sat fyrir framan norðurkóresku þjóðina (a.m.k. þeirra fáu sem áttu sjónvarp til að horfa á hann) og talaði um lestarteina milli landamæri Norður- og Suður-Kóreu og möguleika á fund með Donald Trump. Það var hins vegar leiðtogi Kína, Xi Jinping, sem lét langflestum bregða í brún þegar hann minntist á samband Kína við Taívan.

Í raun má segja að þetta hafi litið meira út eins og hótun frekar en ræða. Forsetinn sagði hreint út að Taívan yrði sameinað Kína með einum eða öðrum hætti og áskildi sér rétt til að beita hervaldi. Ávarpið kom í tilefni þess að fjörutíu ár eru liðin frá því að samskipti milli Peking og Taipei fóru að skána. Eftir að kínversku borgarastyrjöldinni lauk árið 1949 flúði þjóðernisher Chang Kai-shek undan kommúnistaher Maó til Taívan og hefur síðan þá haldið sig við óformlegt sjálfstæði undir verndarvæng Bandaríkjahers. Stjórnvöld í Peking hafa áður fyrr notast við slíkan orðaforða þegar kemur að Taívan-deilunni, en þessi ræða gaf frá sér nýjan tón sem sýndi greinilega óþolinmæði leiðtogans.

Af hverju núna?

Stjórnvöld í Peking skrifuðu lög árið 2005 sem sögðu að þau myndu beita hervaldi ef Taívan myndi skyndilega lýsa yfir sjálfstæði. En heimurinn var aðeins öðruvísi þá en hann er í dag. Árið 2005 var efnahags- og hermáttur Kínverja engan veginn þar sem hann er núna og var þjóðin meira að segja ennþá að þiggja mataraðstoð frá Sameinuðu þjóðunum. Almenningur var upptekinn við að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikanna 2008 og afskiptasemi Bandaríkjamanna í öðrum löndum fældi marga frá því að gera eitthvað af sér.

Xi Jinping tók síðan við forsetaembættinu árið 2012 og hefur síðan þá stillt sér upp sem harðstjóra í Kína undir þeim fölsku forsendum að hann sé að berjast gegn spillingu – eitthvað sem kínverska þjóðin var orðin langþreytt á. Einnig er ljóst er að Xi Jinping hyggst stjórna landinu til æviloka, eftir að kínverska þingið samþykkti ályktun sem gaf honum leyfi til þess í fyrra.

Að auki er þjóðernishroki í landinu kominn út í vitleysu, eins og sást í nokkrum kínverskum borgum yfir seinustu jól. Fólk hrópaði setningar eins og: „að Kínverjar haldi upp á jólin er brennandi skömm og árás á kínverska menningu“ og „frekar en að halda upp á afmæli Jesú 25. desember þá ættum við að halda upp á afmæli Maó 26. desember“. Borgin Langfang í Hebei-héraði lagði til dæmis blátt bann við öllum jólaskreytingum og meinaði búðum að selja vörur með jólaþema af einhverju tagi.

Það að kínversk stjórnvöld séu að breytast í Trölla sem stelur jólunum er ekki endilega það sem skiptir mestu máli, en þetta er allt hluti af stærri mynd. Mynd sem inniheldur vaxandi þjóðernishyggju og andúð á útlendingum, aukið harðræði stjórnvalda og minnkandi frelsi hjá þegnum landsins. Kínversk stjórnvöld sýndu það einnig árið 2016 að þau munu ekki hlusta á alþjóðadómstóla þegar kemur að deilum um eyjar í Suður-Kínahafi sem þau gera tilkall til. Bandaríkjastjórn er farin að draga sig meira í hlé þegar kemur að alþjóðamálum og Bretar eru allt of uppteknir af sinni eigin Brexit kássu. Ef til vill hafa kínversk stjórnvöld líka öðlast meira sjálfstraust eftir að hafa séð hversu lítil viðbrögð Rússar fengu eftir sín hernaðarævintýri í Úkraínu undanfarin ár.

Árekstur

Endurinnlimun Hong Kong í Kína árið 1997 átti einnig að vera dæmi um það hvernig tvö ólík kerfi geta lifað í sátt og samlyndi, en undanfarin ár hafa sýnt að Peking hyggst flýta fyrir útrýmingu á lýðræðisréttindum eyjunnar. Mikil mótmæli brutust til dæmis út árið 2014 þegar kommúnistaflokkurinn reyndi að hafa afskipti af kosningum í Hong Kong. Önnur stefna virðist vera: „ef við getum ekki sannfært þá um að vera með okkur í liði, þá einfaldlega kaupum við þá“. Ferðamannastraumur hefur verið mikill til Hong Kong frá meginlandi Kína og er stór hluti af efnahag þeirra nú orðinn háður þeim fjármunum sem flæða þar í gegn.

Mótmæli brutust einnig út í Taívan árið 2014 vegna viðskiptasamnings sem stjórnvöld í Peking vildu undirrita. Samningurinn átti að greiða leið fyrir 80 kínverska þjónustuaðila inn á taívanska markaðinn og fannst mörgum íbúm eyjunnar eins og verið væri að leiða þá í efnahagsgildru Kína í hag. Þar sem forseti Taívan, Tsai Ing-wen hefur sýnt mikinn mótþróa gegn stjórnvöldum í Peking varðandi sameiningu þá er ljóst að þessi nýja ræða Xi Jinping gæti skapað hættulega öryggisklemmu.

Í stuttu máli þá er nýársheit stjórnvalda í Kína ekki að létta sig, heldur að bæta á sig. Bæta á sig stuðningsmönnum, valdastöðum, áhrifum um heiminn og einn daginn – þessari 23 milljón manna eyju sem liggur í 180 km fjarlægð frá ströndum meginlandsins. Sjálfur ætla ég reyndar bara að sleppa áfengisdrykkju í janúar og sjá hvernig gengur að fara oftar í sund – en ekki geta allir verið eins. Á meðan vil ég óska öllum gleðilegs nýs árs, eða eins og við munum kannski þurfa að segja í framtíðinni: 新年快乐 (sjinn nían kú-æ lö).