Þessa viku stendur yfir ráðstefna Læknafélags Íslands, Læknadagar. Meðal annars er athygli beint að sykursýki 2 og offitu. Fjallað er um sjúkdóminn offitu á breiðum grunni og nýjar leiðbeiningar um meðferð kynntar. Íslendingar eru þyngstir allra Evrópuþjóða en 27% fullorðinna voru með líkamsþyngdarstuðul 30 eða hærri árið 2017 samanborið við 12% árið 2002. Þá voru 20% 15 ára unglinga of þungir árið 2014. Umfjöllunarefnið er því afar mikilvægt en samtímis þarf öll umfjöllun um holdafar að vera nærgætin og án fordóma.

Brýnt er að huga að forvörnum í víðu samhengi því betra er heilt en vel gróið. Ekki síst er mikilvægt að hver og einn hugi að því sem hægt er að gera fyrir eigin heilsu. Því verður á Læknadögum boðið upp á málþing ætlað almenningi og ber það yfirskriftina Mín heilsa, mín jörð, mín ábyrgð. Þar verður fjallað um samspil næringar og heilsu. Einnig verður fjallað um áhrif mismunandi mataræðis á vistkerfi jarðar en loftslagsbreytingarnar eru ógn við heilsu og heilbrigðisþjónustu.

Á málþinginu munu sérfræðingar flytja erindi um áhrif mismunandi mataræðis og hvaða mataræði er líklegast til að hjálpa okkur að halda heilsu og um leið að hugsa vel um jörðina. Rætt verður hvernig umhverfi og markaðsöfl geta haft áhrif á val okkar á næringu, ekki alltaf til góðs og hvernig við getum breytt venjum. Skoðað verður af hverju ekki eitt mataræði hentar öllum og sjónum beint að þeim flóknu kerfum og öflum sem stýra þyngd, m.a. streitu, svefni og þarmaflóru. Loks verður fjallað um hvernig hægt er að gera breytingar til góðs á skynsaman hátt.

Málþingið verður haldið í Hörpu, sal Silfurbergi, miðvikudaginn 22. janúar kl. 20-22. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Kæru landsmenn, hlúum að eigin heilsu, það er hagur okkar og samfélagsins alls!