Í fyrstu bylgju faraldursins í vor lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp um sérstakar sóttvarnaráðstafanir við meðferð dómsmála. Tímabundið var heimilað að aðalmeðferð mála og önnur þinghöld; skýrslugjöf málsaðila og vitna, færu fram í gegnum fjarfundabúnað. Með breytingu sem gerð var í allsherjar- og menntamálanefnd áður en lögin voru samþykkt kom hins vegar upp óvissa um hvort þau stæðust stjórnarskrá, enda mátti skilja breytinguna þannig að aðalmeðferð mála, sem á að vera opin almenningi, geti farið fram gegnum lokaðan fjarfund þar sem engir aðrir en lögmenn og aðilar mála geti fylgst með.

Í samtali við Fréttablaðið lýsti formaður dómarafélagsins efasemdum um að dómarar myndu treysta sér til að haga þinghöldum í samræmi við breytinguna, enda bundnir af stjórnarskránni. Hann lýsti einnig þeirri von sinni að tími gæfist fram til hausts til að finna betri lausnir. Nýtt frumvarp ráðherra hlýtur að vera honum vonbrigði því engar nýjar lausnir hafa verið lagðar til. Það á að framlengja fjarfundafyrirkomulagið fyrir lögmenn og dómara en fréttamenn sem hafa það hlutverk að flytja landsmönnum tíðindi af gangi dómsmála þurfa áfram að mæta í eigin persónu, og sitja saman í þröngum réttarsölum og jafnvel frammi á gangi, þegar fullt er orðið.

Fréttamenn eru vanir fjandsamlegu viðmóti dómstólanna og að því leyti kemur ekki á óvart að þeir fái ekki að njóta þeirra sóttvarnaráðstafana sem settar eru upp fyrir alla aðra til að halda dómskerfinu starfhæfu.

Dómstólar víða um heim hafa hins vegar farið aðra leið og sent út í beinni frá málflutningi. Umfjöllun fjölmiðla um mikilvægan málarekstur við Hæstarétt Bandaríkjanna varð mun innihaldsríkari og vandaðri eftir að bein hljóðútsending frá réttinum varð aðgengileg á netinu. Fjölmiðlum allra aðildarríkja Mannréttindadómstóls Evrópu gefst líka kostur á að fylgjast með málflutningi við yfirdeild réttarins í hljóði og mynd. Fleiri dómstólar hafa farið þessa leið, ekki aðeins vegna faraldursins heldur til að auka gegnsæi í starfsemi dómstólanna og aðgengi almennra borgara að því sem þar gerist.

Margir hafa áhyggjur af samfélagslegum áhrifum faraldursins. Réttindi borgaranna hafa verið skert og ótti kviknar um hvort unnt verði að vinda ofan af þessum áhrifum þegar faraldurinn líður hjá.

Aðrir vekja hins vegar athygli á ýmsum jákvæðum breytingum sem þessar framandi aðstæður hafa skapað, til dæmis á sviðum fjarkennslu og fjarvinnu.

Ef við beitum okkur fyrir jákvæðum breytingum á sviðum lýðræðis og mannréttinda gætum við alla vega tekið einhvern ávinning með okkur út í frelsið.

Í Hæstarétti Íslands fer reglulega fram munnlegur málflutningur um þau mál sem rétturinn sjálfur telur mikilvægast að fjallað sé um af æðsta dómstól landsins. Þar er fjallað um mál sem varða ákvæði stjórnarskrárinnar, ekki síst þegar óvissa er um túlkun hennar.

Bein útsending frá Hæstarétti myndi færa réttinn nær borgurunum og efla umræðu um lagaleg álitamál sem okkar æðsti dómstóll telur brýnast að leysa úr.

Notum færið í faraldrinum og opnum Hæstarétt.