Filippus prins er fallinn frá. Eins og flest annað í hans lífi var útförin sýnd í beinni útsendingu um allan heim. Sumir drukku high-tea af þessu tilefni, aðrir fundu til með drottningunni og enn aðrir hneyksluðust á þessu öllu saman. Þannig virkar jú sýningin í kringum konungsfjölskylduna, okkur finnst við þekkja þetta fólk. Við höfum á því sterkar skoðanir, í senn dæmum þau og dáumst að þeim. Svo vel finnst okkur við þekkja þau að hér á landi heitir Philip til að mynda Filippus.

Með andláti hans lýkur ævi sem má lýsa sem notalegu stofufangelsi. Rétt eins og aðrir í fjölskyldunni var hann eins konar valdalaus sýningargripur í raunveruleikasjónvarpi sem gekk hvern einasta dag, hverja viku, mánuð, ár, áratugi og á endanum í hálfa öld. Eins konar Truman-show fína fólksins.

Ekki misskilja mig, Filippus hafði það gott. Aldrei kalt eða svangur. Á morgnana var búið að strauja fötin hans, útbúa morgunverð og skipuleggja fyrir hann daginn. Honum var ekið um í fínum bílum, umkringdur starfsfólki og þjónum. Vandinn er bara að hann gat aldrei hætt, gengið út úr leikmyndinni og orðið eins og hver annar dúddi á pöbbnum. Það var engin slík klausa í samningnum. Dagskráin hélt alltaf áfram. Heimsókn í smábæ sem þú hefur aldrei heyrt um þar sem bæjarbúar munu horfa á þig, lesa í öll svipbrigði og muna eftir þessari stund alla sína ævi.

Eftir stendur ákveðið þakklæti til mannsins, fyrst og fremst fyrir að taka þetta á sig og gefa okkur hinum eitthvað til að tala um öll þessi ár.