Tilverukrísa hefur bankað reglulega upp á þessa dagana. Miðaldra horfi ég um öxl og er engu líkara en klukkan hafi gengið á margföldum hraða síðustu tuttugu árin. Tíminn frá því að ég gekk með fyrsta soninn og þar til allir þrír eru orðnir ungir sjálfbjarga menn leið bara allt of hratt. Nýr raunveruleiki blasir við sem ég var engan veginn undirbúin fyrir. Á sama tíma og við erum frjáls frá smábarnastússinu fanga minningar frá æskuárum barnanna hugann.

Í nýfengnu frelsinu upplifi ég söknuð. Síðustu viku þræddum við hjónin slóðir á Ítalíu, þær sem við áður tókum börnin með á. Tómlegt aftursætið í bílaleigubílnum rifjaði upp gauragang og „hvað er langt eftir?“ spurninguna vantaði. Það voru engin óvænt pissustopp og enginn lítill bílveikur kútur.

Maðurinn minn minnti mig á að við skiptum á bleyjum í samtals sjö ár, oft við krefjandi aðstæður. Við burstuðum líka tennur, klæddum, skutluðum, sóttum, mötuðum, böðuðum, háttuðum, lásum fyrir og svæfðum. Hugguðum og hughreystum. Það var sjaldan sumarfrí frá þessum verkum.

Líklega er það náttúrulegt að upplifa tómleika þegar börnin vaxa úr grasi. Nýleg rannsókn sem birtist í Nature sýndi að ákveðin heilasvæði sem tengjast félagsvirkni geta rýrnað þegar við verðum miðaldra, þá mest hjá þeim sem upplifa sig einmana en minnst hjá þeim sem eiga gott félagsnet. Ætli partur af tómleikanum sé einmitt skortur á virkni í heilasvæðum sem virkjast þegar við eigum í samskiptum við börnin okkar?

Nostalgía er dýrmæt tilfinning því hún minnir á allt það góða sem lífið hefur fært okkur. En lífið heldur áfram og næsta æviskeiði fylgja ný ævintýri, sem síðar verða vonandi að nýrri nostalgíu.