Í dag, 23. mars, fögnum við degi Norður­landanna. Nor­rænt sam­starf hefur í ára­tugi verið horn­steinn utan­ríkis­stefnu Ís­lands og þar með talið í al­þjóð­legu þing­manna­sam­starfi sem Al­þingi tekur þátt í. Tug­þúsundir Ís­lendinga hafa dvalið á hinum Norður­löndunum við nám eða störf um lengri eða skemmri tíma. Lætur nærri að um helmingur þeirra um það bil 40 þúsund ís­lenskra ríkis­borgara sem býr er­lendis búi á hinum Norður­löndunum. 

Sam­starf Norður­landanna er ein­stakt á al­þjóða­vísu og byggir á gagn­kvæmri vin­áttu, virðingu og sam­vinnu án yfir­þjóð­legra stofnana. Grund­vallar­sátt­máli nor­ræns sam­starfs, Helsing­fors-sátt­málinn, sem var undir­ritaður þennan dag árið 1962, var tíma­móta­samningur. Hann tryggði ríkis­borgurum Norður­landanna jafnt að­gengi til vinnu og náms hvar sem var á Norður­löndunum sem urðu þar með eitt at­vinnu- og sam­skipta­svæði. Norður­löndin urðu þannig braut­ryðj­endur í þróun af þeim toga. 

Norður­löndin standa vörð um sam­eigin­leg gildi lýð­ræðis og virðingar fyrir mann­réttindum. Þá hafa Norður­löndin verið leiðandi í jafn­réttis­málum og um­hverfis­vernd. Þá er ó­talið víð­tækt sam­starf landanna í menningar­málum, mennta­málum og rann­sóknum, vísindum og listum, svo fátt eitt sé talið. 

Í ár eru 57 ár frá undir­ritun og gildis­töku Helsing­fors-sátt­málans og ein­mitt í ár fögnum við einnig 100 ára af­mæli nor­rænu fé­laganna; gras­rótar­sam­starfs íbúa Norður­landa. Það er því til­efni til að fagna og því flöggum við átta fánum allra Norður­landanna við Al­þingi í dag. Til hamingju með daginn! 

Stein­grímur J. Sig­fús­son 
for­seti Al­þingis