Rothögg handboltalandsliðsins gegn Norðmönnum var umhugsunarefni. Leikurinn endaði með þriggja marka tapi, en samt unnum við síðustu 50 mínútur leiksins með fjögurra marka mun.

Byrjunin sló okkur út af laginu. Norðmenn nýttu sér þar ákveðinn menningarmun á þjóðunum. Önnur þjóðin samanstendur af vel úthvíldum A-týpum en hin er upp til hópa vertíðarfólk með síþreytu.

Norðmenn eru allt sem við erum ekki. Þeir smyrja nesti og mæta snemma með kaffi í brúsa. Latasti maðurinn í Noregi vaknar um sjöleytið á morgnana við háðsglósur annarra Norðmanna fyrir að sofa svona lengi. Þeir hafa þá verið á fótum í allavega þrjá tíma, farið á gönguskíðum í vinnuna og rætt hvenær skila eigi skattframtalinu. Öllum verkefnum er tekið af gagnrýnislausri jákvæðni sem er okkur afskaplega framandi. Þeir vinna jafnt og þétt, taka hæfilega mikið að sér og ætla sér aldrei um of.

Þessu er fullkomlega öfugt farið hjá okkur. Um svipað leyti og latasti Norðmaðurinn drífur sig fram úr eru Íslendingar almennt að snúsa auka kortér og undirbúa sig andlega fyrir að moka bílinn út úr gulri veðurviðvörun. Við erum kulnuð með kolvitlausa klukku, svefnvana eftir að hafa fundað um fjárhagsvandræði blakdeildar íþróttafélagsins langt fram yfir miðnætti kvöldið áður. Við erum lengi af stað og þögul sem gröfin þar til allavega tveir kaffibollar eru komnir niður. En þá hrekkur vélin í gang og afkastar langt umfram það sem eðlilegt er enda erum við drekkhlaðin verkefnum, tökum alltof mikið að okkur og klárum svo allar orkubirgðir. Endurtökum svo leikinn næsta dag.

Norskt jafnvægi hlýtur að vera lykillinn að næsta ævintýri handboltalandsliðsins.