Norður­slóðir hafa verið í brenni­depli undan­farin ár og mikil­vægi þeirra verður æ ljósara. Það fer vel á því að nú þegar hillir undir lok for­mennsku Ís­lands í Norður­skauts­ráðinu hafi Al­þingi tekið til um­fjöllunar tvær þings­á­lyktunar­til­lögur sem varða mál­efni svæðisins.

Tíma­bært er að upp­færa norður­slóða­stefnu Ís­lands frá 2011 og því hef ég mælt fyrir til­lögu um nýja stefnu Ís­lands. Hún byggist á niður­stöðum vinnu þing­manna­nefndar með full­trúum allra flokka sem birtar voru á dögunum. Þær miða að því að tryggja hags­muni Ís­lands í víðum skilningi, með sjálf­bæra þróun og frið­sam­legt sam­starf að leiðar­ljósi.

Mál­efni norður­slóða snerta hags­muni Ís­lands með marg­vís­legum hætti og stefnan þarf því að taka mið af að­stæðum á hverjum tíma. Sam­kvæmt þings­á­lyktunar­til­lögunni skal ný norður­slóða­stefna byggjast á 19 á­herslu­þáttum. Þeir lúta meðal annars að al­þjóða­sam­starfi um mál­efni svæðisins, við­brögðum við nei­kvæðum á­hrifum lofts­lags­breytinga, vel­ferð íbúa á norður­slóðum og nýtingu efna­hags­tæki­færa, svo fátt eitt sé nefnt. Ég hef lagt sér­staka á­herslu á að efla sam­starf við Græn­land, okkar næsta ná­granna. Í þeim til­gangi skipaði ég Græn­lands­nefnd til að gera til­lögur um eflingu sam­vinnu landanna á nýjum norður­slóðum. Græn­lands­skýrslan er um­fangs­mesta og ítar­legasta greining sem hefur verið gerð á sam­skiptum Ís­lands og Græn­lands og nefndin gerir sam­tals 99 til­lögur á fjöl­mörgum sviðum.

Í þings­á­lyktunar­til­lögu minni um sam­starf landanna er megin á­herslan gerð tví­hliða ramma­samnings. Það er því mikil­vægt að hefja sem fyrst sam­tal og sam­ráð við nýja lands­stjórn á Græn­landi um næstu skref. Af Ís­lands hálfu verður byggt á til­lögum Græn­lands­nefndar. Ekki er síður mikil­vægt að nýta þann mikla á­huga sem ég hef fundið fyrir frá stofnunum, sveitar­fé­lögum, fyrir­tækjum, fé­laga­sam­tökum og há­skóla­sam­fé­laginu.

Það er von mín að Al­þingi sam­einist um þessi tvö mikil­vægu mál nú á vor­dögum, um það leyti sem endi er bundinn á vel heppnaða for­mennsku Ís­lands í Norður­skauts­ráðinu með ráð­herra­fundi í Reykja­vík.