Við lifum á tímum sem einkennast af krísum. Fyrir skemmstu gengum við í gegnum heimsfaraldur. Áhrifa af hlýnun jarðar gætir í æ meiri mæli. Tegundir hverfa á methraða. Í Evrópu geisar á ný stríð á milli þjóða og þörfin á meiri, og endurnýjanlegri, orku er aðkallandi. Fólk er á flótta frá suðri til norðurs og íbúar okkar búa við aukna verðbólgu og erfiðari fjárhag. Trúin á lýðræðið sem stjórnarform á undir högg að sækja, einnig í samfélögum sem byggð eru á trausti, svo sem hin norrænu. Hvernig eigum við að takast á við allar þessar krísur?

Á Norðurlöndum eru stjórnmál og samfélagsþróun byggð á þekkingu, og helst þekkingu sem byggð er á rannsóknum. Norrænu löndin eru lítil og hafa hvorki efnahagslega burði né getu til að uppfylla rannsóknarþörfina hvert um sig – en saman getum við áorkað miklu. Til þess að auka getu okkar til að stunda rannsóknir á sviði viðbúnaðarmála ættu norrænu löndin að vinna saman að því að koma á fót og fjármagna rannsóknasjóð sem fjármagnar norræn rannsóknarverkefni á sviði öryggis- og viðbúnaðarmála. Stofnun sjóðs vegna rannsókna á sviði viðbúnaðarmála er eðlilegt skref í þróun þess samstarfs á sviði öryggis- og viðbúnaðarmála sem nú þegar er fyrir hendi á Norðurlöndum.

Kveðið er á um opinbert samstarf norrænu landanna í Helsingforssamningnum frá árinu 1962. Hingað til hafa öryggis- og varnarmál verið utan við hið opinbera samstarf innan Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar, þótt samstarfið á þessu sviði sé nú þegar mikið. Með innrás Rússlands í Úkraínu og umsóknum Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu hefur tónninn í umræðum um norrænt samstarf á sviði varnar- og öryggismála breyst. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað fyrir skömmu að meta þörfina á endurskoðun Helsingfors­samningsins svo hann endurspeglaði betur veruleika dagsins í dag og þau úrlausnarefni sem Norðurlönd standa frammi fyrir. Í raun þýðir það að til skoðunar sé að fella samstarf í varnar- og öryggismálum inn í Helsingforssamninginn.

Þegar árið 2009 samþykktu ráðherrar frá norrænu löndunum Haga-yfirlýsinguna sem færir norrænt samstarf á sviði öryggis- og viðbúnaðarmála í formlegan farveg. Með Haga II-yfirlýsingunni frá 2013 var samstarfið aukið enn frekar. Markmið samstarfsins er Norðurlönd án landamæra þar sem stöðugleiki ríkir, ásamt öflugra samstarfi til að koma í veg fyrir, takast á við, komast í gegnum og læra af slysum og krísum.

Í tengslum við Hagasamstarfið setti NordForsk á fót verkefni í kringum rannsóknir á samfélagslegu öryggi árið 2013. NordForsk úthlutar rannsóknarstyrkjum á völdum sviðum sem tengjast öryggi í samvinnu við fjármögnunaraðila rannsókna í löndunum. Á þeim tíu árum sem verkefnið hefur verið starfrækt hefur NordForsk úthlutað styrkjum sex sinnum og fjármagnað 21 rannsóknarverkefni um samtals 225 milljónir norskra króna.

Það er krefjandi og tímafrekt verk að fá fjármögnunaraðila allra norrænu landanna til að sammælast um hvaða verkefni beri að styrkja. Stundum hefur reynst erfitt að úthluta fé með skjótum hætti frá fjármögnunaraðilum í löndunum til norrænna rannsókna á sviði viðbúnaðarmála.

Með stofnun sjóðs vegna rannsókna á sviði viðbúnaðarmála á Norðurlöndum yrði auðveldara að bregðast hratt við þegar krísur koma upp og í öðrum tilvikum þegar þarf að afla þekkingar sem byggist á rannsóknum á mikilvægum sviðum samfélagsins með skjótum hætti svo taka megi ákvarðanir á eins traustum grunni og hægt er. Þegar slíkur sjóður hefur verið stofnaður mun ekki þurfa tíma- og mannfrek ferli í gegnum rannsóknarráð landanna til þess að stunda mikilvægar rannsóknir á sviði viðbúnaðarmála á Norðurlöndum. Jafnframt yrði sjóðurinn mikilvægt skref í þá átt að uppfylla framtíðarsýn forsætisráðherranna frá 2019 um að Norðurlöndin eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030.