Nýliðnir atburðir á Austurvelli hafa verið mér hugleiknir. Ekki þekki ég svo gjörla til þeirra sem þar héldu til en hins vegar grunar mig að þeir komi með áríðandi skilaboð sem menn freistast til að skella skollaeyrum við. Til að útskýra þann grun verð ég að segja smá sögu:

Faðir minn var með verslun vestur á fjörðum og þar var eitt sinn ærslafullur drengur að hlaupa um, viðskiptavinum til ama. Endaði sá leikur með því að drengurinn rakst í háan spegil sem féll yfir hann. Þeir skyni skroppnu fóru strax að athuga hvort ekki væri í lagi með spegilinn meðan þeir sem voru með forgangsröðunina í lagi athuguðu með drenginn.

Mér fannst þessu svipa til þess þegar pappakraginn hans Jóns Sigurðssonar stal senunni á Austurvelli um daginn. Hann er nú úr Arnarfirði og verður eflaust búinn að jafna sig fyrir Jónsmessu en hins vegar er Evrópa full af „Austurvöllum“ þar sem fólk af ýmsum þjóðernum sefur úti og mun gera um ókomnar Jónsmessur. Þetta eru ekki hallokar sem kunna ekki að pluma sig heldur fólk að flýja örbirgð síns heimalands. Oft er þetta ástand tilkomið af ágirnd ólígarka frá Ameríku og viðhaldið með vopnum frá sænskum framleiðendum, allt saman sómafólk í augliti hins óréttláta heims. Aðrir eru kannski að flýja mafíuna og er það satt að segja ömurlegt hlutskipti sem fáir Íslendingar þekkja. Okkar munaður er meðal annars fólginn í því að geta leyft okkur að gleyma því að útgangurinn á Jóni Sigurðssyni er hreinn tittlingaskítur í samanburði við þessa neyð.

Mér finnst atburðirnir á Austurvelli vera að minna okkur á að þegar vitringurinn bendir okkur á stjörnurnar, þá sé ráðlegast að horfa til himins – ekki á fingurinn.