„Gerði ég nóg í dag?“ hljómar í sífellu innan í höfðinu á mér þegar ég lýk mánudagsmorgunvaktinni á Bráðamóttökunni. Reyndar ómar ýmislegt annað þarna innan í höfðinu á mér. Skrækar sjúklingabjöllunnar í takt við stöðug viðvörunarhljóð hjartasíritanna mynda sinfóníu sem enginn skilur nema við sem vinnum í heilbrigðiskerfinu. Þarna fyrir innan sönglar líka stöðugt suð fyrir eyrum sem að miklu leiti orsakast af krónískri vöðvabólgu og streitu. „Gerði ég nóg?“

„Ég velti því fyrir mér, hvar er punkturinn, hvar eru kjör þessara stétta orðin nógu góð?“ spyr Svanhildur Hólm Valsdóttir eins og hún viti ekki svarið. Hún lætur spurninguna flakka í beinni útsendingu Silfurs Egils, svona eins og hún sé að spyrja ungmennið á heimilinu hvort ekki sé komið nóg af Play Station eða smákrakka hvort ekki sé komið nóg af nammi í dag. Hún tekur svo upp á því að nefna alls konar tölur, sem svo heppilega vill til að hún er búin að fletta upp fyrir þáttinn, um meðalheildarlaun ýmissa heilbrigðisstétta sem þau hafa þegið á tímum heimsfaraldurs, epískrar manneklu og fordæmalausum veirutengdum veikindum landsmanna. Tölur sem heilbrigðisstarfsmenn kannast almennt ekki við á launaseðlum sínum, tölur sem dagvinnumanneskjan hefur aldrei áður heyrt nefndar, launatölur sem ekki er hægt að nálgast nema nánast selja heilbrigðiskerfinu sálu sína.

Ég leyfi mér að efast um að hún hafi óvart flett upp meðalheildarlaunum heilbrigðisstarfsmanna í stað meðalgrunnlaunum. Ég leyfi mér líka að efast um að kona með hennar bakgrunn í atvinnulífinu viti ekki að þegar rætt er um kaup og kjör er alltaf rætt um grunnlaun. Það læðist einnig að mér sá grunur að hún viti vel að heilbrigðisstarfsfólk gerir svo sannarlega nóg og svo miklu meira en nóg.

Þetta vitum við öll og líka Svanhildur Hólm Valsdóttir sem hlýtur að átta sig á því nú að í þessum þætti hljómaði hún eins og markþjálfinn sem hitti alls ekki í mark þarna um árið með fullyrðingunni um að „þú sért nóg“.

Ég velti því fyrir mér, hvar er punkturinn, hvenær er heilbrigðisstarfsfólk búið að gera nóg til að verðskulda ásættanleg laun?

Hvenær er heilbrigðisstarfsfólk búið að mæta nógu oft í vinnuna, fórna nógu mörgum frídögum, vera nógu oft lengur í vinnunni vegna manneklu, vaka nógu margar nætur yfir sjúklingum, missa af nógu mörgum Aðfangadagskvöldum, tapa nógu mörgum samverustundum með fjölskyldunni, vera í nægri nálægð við nógu marga skjólstæðinga með lífshættulega og smitandi sjúkdóma? Finna geðheilsuna dala, svefninn fara úr skorðum, brenna kertið í báða enda. Hvenær er komið nóg?

Vissulega er ekki hægt að verðmeta hamingjuna, hvað þá tímann sem við höfum á þessari jörð eða heilsuna en það er sannarlega hægt að meta vinnuframlag, menntun og ábyrgð til fjár. Þetta vitum við öll og líka Svanhildur Hólm Valsdóttir sem hlýtur að átta sig á því nú að í þessum þætti hljómaði hún eins og markþjálfinn sem hitti alls ekki í mark þarna um árið með fullyrðingunni um að „þú sért nóg“. Það eru nefnilega ekki forréttindi að „fá að taka“ aukavaktir og „hafa möguleika á að vinna“ yfirvinnu.

Það langar engan að komast ekki heim af vaktinni því enginn er að koma að taka við sjúklingnum þínum og það óskar sannarlega enginn eftir því að vera kallaður nauðugur til vinnu úr sumarfríi því manneklan ógnar öryggi skjólstæðinga okkar. Kjör heilbrigðisstarfsfólks standa ekki á einhvern óútskýranlegan hátt fyrir utan lögmál hagfræðinnar um framboð og eftirspurn. Þetta ætti framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs að vera deginum ljósara. Ef ráða á heilbrigðisstarfsmann til starfa þarf að greiða fyrir það ásættanleg laun og ef óskað er eftir meira vinnuframlagi en ráðningarsamningur segir til um þá skal greiða fyrir það líka. Við erum takmörkuð auðlind sem mikil eftirspurn er eftir. Ef eftirspurn eftir starfsfólki er meiri en framboð þarf eðlilega að hækka launin. Þetta ætti að vera á kristaltæru.

Við sem störfum í heilbrigðiskerfinu erum sammála um að nú sé komið nóg af því að að vegið sé markvisst að kjarabaráttu heilbrigðisstarfsfólki með fabúleringum um himinhá launakjör þar sem viljandi er talað um heildarlaun þótt vitað sé að rétt sé að tala ávallt um grunnlaun. Það er ekki traustvekjandi að ráðamenn þjóðarinnar og fólk eins og Svanhildur Hólm, sem ætla mætti að kunni að fara með tölur, sýni aftur og aftur að það er algerlega ófært um að túlka launatöflur og að þau myndu skítfalla í fjármálalæsi sem kennt er í tíunda bekk. Þar er punkturinn. 

Höfundur er hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.