Fyrir viku vaknaði ég upp við vondan draum. Með stírurnar í augunum skoðaði ég símann á mánu­dags­morgni, eftir að hafa deginum áður komið heim úr tveggja vikna utan­lands­ferð. Þar biðu mín skila­boð frá Heilsu­veru: „Haukur. Þú hefur greinst með Co­vid sjúk­dóminn.“

Þegar þessi orð eru lesin, er áttundi dagur ein­angrunar að renna upp og að­eins ör­fáir dagar eftir. Þetta hefur svo sem verið á­gætt, mér hefur ekki leiðst í eina mínútu. Net­flix hefur brotið upp eins­leita fanga­vistina. Þar sem ég missti bragð­skynið er eina eftir­sjáin sú að hafa ekki fyllt bílinn af selleríi til að éta í tvær vikur í stað þess að eyða hita­einingum í sæl­gæti, snakk og annað gúm­me­laði sem ekkert bragð er af. Ég hefði getað komið til baka úr ein­verunni í topp­formi.

En það góða við daginn í dag er að nú sleppur fjöl­skyldan mín úr viku­langri sótt­kví, fjarri vinum, skóla og æfingum. Þetta er nú meira ruglið! Ein vit­leysan er sú að ég sé skikkaður í allt að fjór­tán daga ein­angrunar­vist, full­bólu­settur, ein­kenna­laus og heilsu­hraustur. Enn furðu­legra er að allir þeir sem ég komst í tæri við hafi verið sendir í sótt­kví í heila viku (til upp­lýsinga hafa allir greinst nei­kvæðir). Ef­laust lentu far­þegarnir í sætum 28E og 28F í slíkri prísund. Af­sakið það, ef þetta ratar til ykkar!

Sótt­kví er auð­vitað ekkert annað en stofu­fangelsi, án þess að við­komandi hafi gert nokkuð af sér. Refsi­vist án brots. Fyrir skemmstu voru 10 prósent Akur­eyringa í sótt­kví, með til­heyrandi lömun fyrir bæjar­fé­lagið. Er ekki kominn tími til að hætta þessu og halda lífinu á­fram?