Stofnun hálendisþjóðgarðs er meðal áherslumála í stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þarna er um að ræða mál sem Vinstri grænum er sérlega annt um meðan áhugi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er í lágmarki.

Nú þegar Vinstri græn vilja gera alvöru úr stofnun hálendisþjóðgarðs kemur ekki á óvart að stór hluti Sjálfstæðismanna vill ekki kenna sig við málið. Í stjórnarsamstarfi verða Sjálfstæðismenn yfirleitt alltaf jafn hissa þegar þeir komast að því að samstarfsflokki þeirra er full alvara með að koma í framkvæmd áherslumálum sem áður hafði verið samið um. Innan Sjálfstæðisflokks virðist litið svo á að ákvæðið um hálendisþjóðgarð hafi verið sett þar til málamynda, svona til að friða Vinstri græna, lokka þá til samstarfs og drepa síðan málið með tuði og mótmælum.

Fagna ætti hugmynd um hálendisþjóðgarð sem yrði sá stærsti í Evrópu. Á tímum þar sem mikilvægi náttúruverndar ætti að vera öllum ljóst er sárt til þess að vita að almenn ánægja skuli ekki ríkja með þessa hugmynd. Tilurð slíks hálendisþjóðgarðs væri til marks um að Íslendingar vilji umfram allt vernda náttúru sína. Um leið er dapurlegt að fylgjast með óánægjugóli sveitarfélaga sem segja að verið sé að taka af þeim yfirráð yfir svæðum. Fulltrúar þessara sveitarfélaga ættu að hafa skynsemi til að fagna áformum um þjóðgarð og standa þannig með náttúrunni. Verndun hennar skiptir mun meira máli en yfirráð þeirra.

Stofnun hálendisþjóðgarðs er baráttumál Vinstri grænna og allir náttúruverndarsinnar hljóta að styðja það. Ekki kemur á óvart að andstaða sé við málið meðal Sjálfstæðisflokksins, en þar á bæ hafa menn sjaldnast sýnt í verki að þeim sé annt um verndun náttúrunnar. Sjálfstæðismenn hafa yfirleitt einungis áhuga á náttúrunni þegar kemur að því að nýta hana til að græða peninga. Ekki þarf heldur að furða sig á að hörð andstaða sé við málið meðal Miðflokksmanna, en engir þingmenn Alþingis leggjast jafn ötullega á sveif með vondum málstað og einmitt þeir. Það var nánast sjálfgefið að þingmaður þeirra, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar þingsins, skyldi básúna þá skoðun sína að stofnun hálendisþjóðgarðs væri ótímabær. Ekki virðist sá þingmaður mikið í takt við strauma samtímans, fremur en aðrir þingmenn þess flokks. Virkjanasinnar hvar í flokki sem þeir standa hafa síðan hópað sig saman og fara með margtuggna möntru sína um nauðsyn virkjana á hálendinu og yfirvofandi raforkuskort.

Því miður virðist ekki sérstök ástæða til bjartsýni í þessu máli. Innan Sjálfstæðisflokks munu ýmsir áhrifamenn beita sér gegn því. Vinstri græn munu sjálfsagt taka því eins og hverju öðru hundsbiti og barma sér í hljóði. Flokkurinn sem kennir sig við umhverfisvernd er stöðugt að reka sig á að þetta ríkisstjórnarsamstarf er ekki að skila honum neinu nema viðvarandi niðurlægingu. Samt hangir flokurinn áfram í vonlausu samstarfi. Uppgjöf Vinstri grænna virðist algjör.