Boðað lausagöngubann katta á Akureyri hefur víða vakið furðu og jafnvel hneykslun í öðrum landshlutum þar sem margur spyr sig hvers vegna Akureyringar hati kisur.

Velmeinandi fólk leitar meðal annars skýringa í óljósu orsakasamhengi við meint oflæti þeirra fyrir norðan og tilhneigingu til að kenna aðkomufólki um allt sem aflaga fer í bænum. Nema Bíladaga sem þeir eru einhverra hluta vegna afskaplega stoltir af.

Líklegt má þó teljast að höfuðstaður Norðurlands hafi færst fjær því að geta orðið borg þegar í ljós kemur að á þeim bænum telst hatur á málleysingjum til mannkosta.

Í hund og kött

Andúðin á köttum fyrir norðan kristallaðist í gær ágætlega á Facebook í athugasemdum við frétt RÚV um málið þar sem ein benti á að hún hefði kvartað reglulega yfir lausagöngu einhleypra karlmanna og velti fyrir sér hvort bann við slíku væri væntanlegt í náinni framtíð.

Einum þótt þetta bæði ótrúlegt og skammarlegt og spurði hvort ekki ætti líka að banna krumma og máva.

Þetta heita deilumál verður þó varla leitt til lykta á Facebook en þar er þó komin sú niðurstaða að Akureyringar virðist áfram um aukinn músagang.