Flestir hafa einhvern tíma verið í návist einstaklings sem hefur unun af að tuða. Þar sem tuðarinn telur sig eiga brýnt erindi og ætlast til að aðrir taki mark á honum breiðir hann úr sér á alla kanta meðan yfirþyrmandi þreytutilfinning hellist yfir hlustandann. Hann vill umfram allt forða sér en finnur ekki útgönguleið því tuðarinn hefur læst klóm sínum í hann og lætur nöldrið dynja á honum og ætlast til samþykkis.

Á dögunum birtist í Morgunblaðinu flennistór auglýsing sem virðist samin af dæmigerðum tuðara, sem þarna tókst að koma á prent öllu því sem hann hefur svo lengi haft unun af að tuða yfir. Borgarstjórann burt! var yfirskriftin og hún hefur örugglega fallið í kramið hjá áskrifendum og lesendum Morgunblaðsins – það er að segja þeim sem eftir eru af áður stórum hópi. Í nítján atriðum voru rekin það sem áttu að vera stórfelld embættisafglöp borgarstjórans, Dags B. Eggertssonar, en í neðanmálsgrein var fullyrt að hann væri versti borgarstjóri Reykjavíkur frá upphafi. Nokkru seinna birtist þessi sama auglýsing í víðlesnasta blaði landsins, Fréttablaðinu, sennilega hefur þannig átt að tryggja að hún færi ekki fram hjá landsmönnum.

Hér er ekki pláss til að telja upp þær nítján syndir borgarstjórans sem flaggað var í auglýsingunni, en hann á meðal annars að bera ábyrgð á því að borgarbúar er fastir í umferðarteppum alla daga, kvölds og morgna. Vöxtur illgresis er einnig skrifaður á hann, sem og rottugangur í borginni og losun plastagna.

Undir þessa auglýsingu skrifar Bolli Kristinsson kaupmaður. Hér skal ekki látið eins og hann sé einn á báti. Það er Bolli alls ekki, hann á sér einhverja fylgjendur.

Borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, er vissulega ekki hafinn yfir gagnrýni og á löngum stjórnmálaferli hefur hann örugglega gert sín mistök. Það verður þó ekki af Degi haft að hann er yfirleitt velviljaður og réttsýnn. Þetta eru góðir eiginleikar í lífinu sjálfu en í pólitíkinni eru þeir ekki mikils metnir. Pólitík byggir að of stórum hluta á útúrsnúningum, upphrópunum, illvilja og alls kyns gjammi. Dagur er ekki þannig stjórnmálamaður, ólíkt sumum í minnihluta borgarstjórnar sem virðast beinlínis hafa unun af að opinbera dónaskap sinn sem allra oftast.

Borgarstjórinn svaraði Bolla á þann kurteisa hátt sem hans var von og vísa. Hann benti á að Bolli býr á Spáni. Nú getur íbúi á Spáni vissulega haft skoðun á málefnum Reykjavíkurborgar, en þá er betra að hann hafi gengið um götur borgarinnar, ekki bara einu sinni heldur margoft. Þá hefði hann til dæmis séð að miðbærinn hefur breyst til hins betra og að Laugavegurinn er ekki draugagata eins og haldið er fram í auglýsingunni.

Vissulega hafa COVID og harkalegar aðgerðir stjórnvalda lamað miðborgina síðustu mánuði. Þegar þessi leiðindapest – sem ekki verður skrifuð á ábyrgð borgarstjóra – er frá þá hefst eðlilegt líf að nýju og miðbærinn mun blómstra. Það er til nokkurs að hlakka.