Það er auðvitað þyngra en tárum taki að maður skuli að loknum alþingiskosningum þurfa að setja orðið „niðurstaða“ í gæsalappir, hafi maður í hyggju að fjalla um „úrslit“ kosninga í hinu rótgróna lýðræðisríki Íslandi hátt í tveimur vikum eftir að þær fóru fram. En sú er jú raunin. Ekki hefur enn verið útkljáð hvaða einstaklingar setjast á þing með óyggjandi móti. Satt að segja er útlit fyrir að fáir viti raunverulega hvað beri að gera í kjölfar þess að tiltekinn formaður kjörstjórnar hafi uppá sitt einsdæmi, virðist vera, ákveðið að telja aftur atkvæði sem lágu óinnsigluð á glámbekk í Borgarnesi og skila öðrum tölum en hann hafði áður skilað í lok formlegrar talningar.

Hvað gera bændur við svona? Liggi atkvæði óinnsigluð getur óprúttinn einstaklingur að næturlagi hæglega skemmt sér við að stroka út krossa á seðlum og setja nýja. Gera má seðla ógilda. Einu sinni heyrði ég af því — og sel það ekki dýrara en ég keypti það — að óinnsiglaðir atkvæðakassar hafi óvart farið suður til Reykjavíkur einhvern tímann frá talningastað úti á landi fyrir nokkrum árum og setið þar týndir í lítilli rellu á Reykjavíkurflugvelli tímunum saman. Gallharður fylgismaður til dæmis flugvallarins í Vatnsmýri hefði þar getað dundað sér við að opna kassana og breyta nokkrum seðlum sínu fólki í vil.

Eða eitthvað. Hvað veit maður? Málið er þetta: Það er óhætt að fullyrða að á Íslandi ríki almennt mikið raust til lýðræðislegra ferla. Mögulega er þó í traustinu fallið falið. Stóra þversögnin er sú, að einmitt vegna þessa trausts — sem kannski orsakast af því að við erum fá og flestir þekkja flesta — geta mistök og spilling fremur átt sér stað. Ef tortryggnin er lítil sem engin, þeim mun meira grasserar kæruleysið og fleiri læðupokar fara á stjá. Viðkvæðið „látið ekki svona, það fer enginn að fikta í atkvæðaseðlum á Íslandi,“ eins og mér fannst tónninn vera í svörum formanns kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, er vís vegur til epísks klúðurs.

Einu sinni var ég fenginn í kosningaeftirlit í alræmdu einræðisríki í Austur-Evrópu, þar sem einræðisherrann puðast enn við að sannfæra þegna sína og veröldina að hann sé víst lýðræðislega kjörinn, sama hvað hver segi. Það var óhemju lærdómsríkt að verða vitni að því hvernig kosningasvindlið fór þar fram. Prúðbúnir mættu kjósendur á kjörstað. Leynileg atkvæði sett í kassa og allt skráð og kvittað. Kassarnir innsiglaðir og keyrt með þá á talningastað. Þar var atkvæðum hrúgað á borð og reffilegt talningafólk hófst handa við að telja. Allt var í sóma fram að þessum tímapunkti. Auðveldlega hefði verið hægt að missa sjónar af svindlinu sem ákkurat þarna fór fram. Slíkir voru tilburðirnir. Alvarleikinn í fasi talningarfólks og yfirbragð fagmennskunar breyttu þó ekki þeirri staðreynd að við í eftirlitinu fengum ekki að sjá seðlana. Okkur var gert að standa afsíðis. Við sáum fólk telja í fjarska, þögult, en við vissum í raun ekki hvað það taldi. Bunkar stöfluðust upp, en hvaða bunkar? Svo las manneskja upp niðurstöðuna, hátt og skýrt, eins og í hápunkti leikrits. Sú niðurstaða gat þó allt eins hafa verið ákveðin fyrirfram í excelskjali á skrifstofu forsetans. Að þessu loknu voru kjörseðlar keyrðir, kyrfilega innpakkaðir, í læstar dýflissur og örugglega aldrei spurst til þeirra síðan. Forsetinn vann vitaskuld stórsigur, en sá sigur var augljóslega innan gæsalappa.

Ég fussaði og sveiaði alla leiðina heim í flugvélinni. Ja, hérna, tuldraði ég. Ég trúði þessu ekki. Svona er þetta þá gert. Í einu fráviki í öllu ferlinu lá svindlið. En nú má spyrja. Af hverju skyldi ég ekki fussa og sveia líka yfir Norðvesturkjördæmi? „Þetta er ekki Langtíburtistan,“ gæti einhver sagt. „Fólk gerir ekki svona hér.“ En hvernig er hægt að vita það? Hvort er skynsamlegra þegar lýðræðislegt grundvallarferli er annars vegar, að vera tortrygginn eða ekki tortrygginn? Vissulega er meira kósí að láta þetta allt sem vind um eyru þjóta og halda áfram að horfa á Squid Game í rólegheitum. Poppa. Upp úr kjörkössunum komu sterkar vísbendingar um að slíkur sé jú tíðarandinn. Lítill er viljinn til vesens.

En þetta er alvarlegt. Nú reynir á. Málið blasir svona við mér: Fyrri talningin verður að standa. Seinni talningin á sér ekki stoð í lögum. Sé vilji til þess að telja aftur — og sé sá vilji látinn í ljós samkvæmt formlegum leiðum — er ljóst að þá verður að kjósa aftur. Þeir atkvæðaseðlar sem við höfum núna eru augljóslega ónýtir og gagnslaust að telja þá. Í lýðræðisríki verður að gera hlutina rétt. Á því er enginn afsláttur. Annars höfum við lýðræði í gæsalöppum.