Í um­ræðunni hér geisa oft stormar, sem virðast hrífa marga með sér. Ráða þá oft ferðinni blanda af tak­markaðri vit­neskju, ó­full­nægjandi út­tekt og yfir­vegun, til­finningum og svo vilja til að sanna sitt mál, og, í leiðinni, ná sér niðri á pólitískum and­stæðingi; slá úr málinu pólitískt kapítal.

Til­gangur Ís­lands­banka­sölunnar

Helzti til­gangurinn með sölunni var sá, að fá inn fé, auð­vitað sem mest, til að lækka skuldir ríkis­sjóðs, en skulda­söfnun hafði aukizt gífur­lega þau tvö ár, sem Co­vid geisaði, og, þá um leið, lækka vaxta­byrði ríkisins. Vaxta­greiðslur rýra auð­vitað fjár­muni til vel­ferðar­kerfisins.

Sér­stak­lega hjá Sjálf­stæðis­mönnum bættist svo við viljinn til að draga úr ríkis­rekstri og sú hug­mynda­fræði, að fjár­sýsla og öll helztu við­skipti væru bezt komin í höndum einka­fram­taksins.

Í þessu sinni var til­gangur Ís­lands­banka­sölunnar af hinu góða.

Gekk til­gangurinn eftir –
náðist gott verð?

Þegar til út­boðsins kom, 22. marz sl., var verð­gildi hlutar í Ís­lands­banka 122 kr. Gátu menn keypt, hvaða fjölda bréfa sem var, t.a.m. 1.000 hluti, fyrir þetta verð.

Nú, hins vegar, átti að selja, á einu bretti, 450.000.000 hluti. Var við því að búast, að sama verð fengist fyrir þetta risa­stóra út­boð!? Auð­vitað ekki! 4% lækkun, í 117 kr. fyrir bréf, var því, alla vega fyrir undir­rituðum, hálf­gerður brandari, enda hafði ég engan á­huga á þátt­töku í út­boðinu.

Hér verður að hafa í huga, að, þegar bréf eru keypt og seld, kemur til kaup- og sölu­þóknun, alls 1,5%, hér 2 kr. á hlut. Þannig þurfti kaupandi þessara bréfa á 117 kr., að fá 119 kr. við endur­sölu, rétt til þess að vera á sléttu.

Það undar­lega gerðist samt, að bréfin ruku út á þessu – fyrir mér – yfir­verði. Hluti af skýringunni, af hverju allir fjár­festar, sem gátu, hentu sér í þetta, er trú­lega sú nálgun, að selja bara á út­valinn hóp fjár­festa.

Menn fylltust þeirri til­finningu, að hér væri sér­stakt tæki­færi til að græða, sem ekki mætti missa af; þeir væru í hópi hinna út­völdu.

Svo fór þó ekki, því nú, átta mánuðum seinna, standa þessi bréf í mögrum 124 kr., og á síðustu vikum og mánuðum hafa þau endur­tekið farið niður í 117 kr., voru greini­lega á leið niður fyrir það, en bankinn virðist hafa varið þau í 117 kr. Fáir fjár­festar hafa því riðið feitum hesti frá þessum hluta­bréfa­kaupum. Þeir, sem beita láns­fé, hafa tapað.

Það er því ekki of­sögum sagt af því, að þessi sala 22,5% hluta­bréfanna í Ís­lands­banka hafi verið ríkinu afar hag­felld. Skulda­staðan bætt um tæpa 53 milljarða og milljarða vaxta­kostnaður á ári sparaður.

Allt tal um, að selt hafi verið á of lágu verði, og, að ríkið hefði tapað 2-3 milljörðum, ber því fyrir undir­rituðum vott um þekkingar- eða dóm­greindar­skort, nema hvort tveggja sé, hver sem aðilinn er.

Hlið­stætt út­boð og út­koma

Fjórum mánuðum fyrir Ís­lands­banka­söluna fór fram hlið­stætt út­boð í Síldar­vinnslunni. Á opnum og frjálsum markaði fékkst 101 kr. fyrir hlutinn. Verð­gildi þessara hluta­bréfa er í dag 122,50 kr. Þarna hafa fjár­festar hagnast um­tals­vert – sem líka er nauð­syn­legt, því mikil á­hætta fylgir fjár­festingu í hluta­bréfum – and­stætt því, sem er með Ís­lands­banka, þar sem fjár­festingin rétt hangir.

Þetta dæmi á­réttar auð­vitað, hversu hag­stætt Ís­lands­banka­út­boðið var fyrir ríkið og ó­hag­stætt fyrir fjár­festa.

Hvað með fram­kvæmdina?

Í al­mennri um­ræðu og skoðana­myndun, reyndar í flestum málum hins dag­lega lífs, er eitt það hættu­legasta og versta, sem hendir menn, þegar þeir rugla saman stórum málum og litlum, hræra aðal­at­riðum og auka­at­riðum saman, eins og söm væru. Þannig fæst ekki skyn­sam­leg, hlut­læg eða upp­byggi­leg niður­staða.

Ljóst er, að ýmis­legt hefði mátt betur fara við fram­kvæmd Ís­lands­banka­sölunnar. Lang­bezt hefði verið, ef hún hefði verið opin og frjáls. Aðal­at­riðið var þó það, að tryggja hags­muni ríkis­sjóðs, okkar allra, með hæstu mögu­legu sölu­verði, sem tókst.

Önnur sjónar­horn geta verið góð og gild, en ættu að vega minna.

Góður maður sagði við mig í skoðana­skiptum um málið: „En fyrir mér er kjarni málsins að þegnarnir stóðu ekki jafn­fætis við söluna“.

Auð­vitað eru jafn­réttis­sjónar­mið góð, en er á­stæða til að gera mikið með þetta, þegar fyrir liggur, að á­vinningur af þessari að­komu var lítill eða enginn? Jafn­rétti til góðra mála er gott og rétt, en er jafn­rétti til vafa­samra hluta eða ó­hag­stæðra líka mikil­vægt?

Faðir fjár­mála­ráð­herra

Ég get ekki látið þessu lokið án þess að minnast á föður fjár­mála­ráð­herra og stöðu hans hér. Ein­hverjir virðast halda, að hann beri að úti­loka frá einu og öðru, t.a.m. frá þessu út­boði Ís­lands­banka, bara af því að hann er faðir fjár­mála­ráð­herra.

Sumir hér virðast líka telja, að fjár­mála­ráð­herra geti sagt föður sínum, hvernig hann eigi að sitja og standa; skipað honum fyrir verkum.

Annar eins barna­skapur!

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndunarsinni.