Við þorpið þar sem ég bý liggur langur göngustígur meðfram umferðargötu og á lágsléttu sem lumar vart á nokkru sem augað vill gæla við. En þar sem þetta er göngustígur hópast fólk þarna unnvörpum í útivistargöllunum sínum. Þessi smekkleysa mannfjöldans kemur sér vel fyrir mig sem get farið grímulaus um sjaldfarinn slóðann sem liggur gegnum skóga og ólífurakra, undir klettahömrum í djúpum dal, hlustað á söng fuglanna og gleymt því að fjórhjóla-amstur hafi nokkurn tímann verið fundið upp.

Maður þarf ekki að vera lærður til að sjá að meirihlutanum eru oft mislagðar hendur þegar kemur að smekk og dómgreind, um það vitna bæði kosning Donalds Trump og vinsældir Aerosmith. Og nú er það lenska að fá sem mestar upplýsingar á sem skemmstum tíma, sjá myndband sem sýnir augnablikið þegar kötturinn stekkur á skugga sinn, fallegustu mörkin á færibandi, lesa þrumandi fyrirsagnir eða spakmæli í fáum orðum, stunda samskipti í símskeytaformi, borða tilbúna rétti og fá drátt án viðreynslu og viðkynningar. Vissulega eru þetta girnilegir skyndibitar en hins vegar er hitt hollara að skella skollaeyrum við þessu öllu, grípa þykka bók og gleyma sér við lestur tímunum saman, finna söngheftið og fylgjast með heilli óperu, sjá alla tónleika Led Zeppelin í Madison Square Garden eða gleyma sér á endalausu vinaspjalli með einhverjum sem hefur ekki einu sinni samrekkt neinum frægum.

Er mannskepnan orðin að neysluvargi nú þegar hún lifir lífinu eins og það væri niðursoðinn nýlenduvarningur? Svar óskast í handhægum umbúðum.