Ég sá á dögunum Facebook-status frá hóteli á landsbyggðinni um að sumarið í ár væri að þróast allt öðruvísi en til stóð. Í upphafi var búist við að þetta yrði eitt erfiðasta sumar seinni tíma, enda varla einn einasti erlendur ferðamaður á landinu. Það hafi þó heldur betur ekki orðið raunin, sumarið væri að þróast í að verða eitt það besta lengi. Ástæðan er einföld: íslenskir ferðamenn.

Það má nefnilega aldrei vanmeta neysluæði Íslendinga í sumarfríi. Þótt þjóðin sé að jafnaði að reyna að svelta sig heilu og hálfu dagana, með ketó, fimm-tveir, sautján-sjö eða hvað sem allir þessir óhamingjukúrar eru kallaðir, þá halda okkur engin bönd þegar við komumst í frí. Þá er það ekki lengur hrökkbrauð og hversdagsleiki heldur standandi veisla.

Bara það að skjótast upp í sumarbústað eina helgi útheimtir hamfarainnkaup af snakki, æðibitum, gosi, maríneruðum kótilettum, pönnukökum, sírópi og beikoni í morgunmatinn, nóg af grillsósum og ídýfu, nammi í stórum dunkum og öðrum lífsins lystisemdum.

Íslendingur sem byði upp á soðna ýsu í sumarbústað yrði sennilega flæmdur af svæðinu og bústaðurinn tekinn eignarnámi í framhaldinu.

Þetta er óvísindaleg fullyrðing en ég held að meðal Íslendingurinn, sem er nýbúinn að stilla á Out of office og gönnar þjóðveginn með klippikort á hótel og nýkeyptan tjaldvagn í eftirdragi, sé á við allavega fimm matgranna evrópska ferðamenn í neyslu og eyðslu. Okkur dugir ekki fiskur dagsins og vatnsglas, heldur sjö rétta matseðillinn og sérvalin vín. Við pökkum ekki nesti heldur treystum á að bensínsjoppur landsins selji okkur pulsur og kartöflusalat á okurverði.

Það skyldi þó vera að okkar eigin neyslugeggjun verði leiðin út úr kreppunni?