Sagt hefur verið að sé maður með annan fótinn í sjóðandi vatni og hinn í ís hefði hann það að meðaltali harla gott.

Og segja má að við höfum það að meðaltali gott hér á landi. En það er með meðaltöl að þau segja ekki alla söguna. Í Fréttablaðinu í vikunni var fjallað um matarúthlutanir hjálparsamtaka. Þar kom fram að nú stefni í metaðsókn í matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Í febrúar hefðu 2.200 heimili fengið úthlutað mat frá félaginu. Í mars stefni í að 2.500 heimili þurfi aðstoð af þessu tagi.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar, segir í fréttinni að mun meira sé að gera í yfirstandandi mánuði en vant er. Hluti skýringarinnar kann að vera sú að í mánuðinum hafi staðið yfir páskaúthlutanir. Þá kemur fram að Fjölskylduhjálpin gæti ekki sinnt þessum heimilum öllum nema fyrir gjöf Kaupfélags Skagfirðinga, sem færði fram 40 þúsund máltíðir í lok síðasta árs. Ásgerður Jóna segir neyðina í febrúar meiri en tölur Fjölskylduhjálparinnar gefi til kynna og fjöldi fólks leiti til annarra hjálparsamtaka.

Í sömu frétt segir Vilborg Oddsdóttir hjá Hjálparstarfi kirkjunnar að hún merki stórfellda aukningu í neyðaraðstoð frá því faraldurinn skall á og nefnir 40 prósent í því sambandi. „Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur alveg síðan COVID skall á með atvinnuleysi og slíku, en svo er alltaf meira í kringum páska og aðrar hátíðir,“ segir Vilborg.

Illt er til þess að hugsa að þúsundir heimila þurfi á neyðaraðstoð að halda til að geta dregið fram lífið í þessu landi allsnægta. Þá verður því ekki á móti mælt að faraldurinn sem allt skekur hefur gert líf þessa fólks óbærilegra en annars hefði verið.

Þetta er áleitið umhugsunarefni nú þegar nýlega er búið að stórherða á takmörkunum með víðtækustu höftum sem gripið hefur verið til hérlendis frá því faraldurinn blossaði upp.

Í upphafi faraldursins var gripið til takmarkana til að halda álagi á heilbrigðiskerfið innan þolmarka. Það tókst. Þá óttuðust menn að veiran legðist þyngst á þá sem eldri eru og veilir fyrir. Sú varð raunin.

Nú gerir afbrigði veirunnar vart við sig sem smitast auðveldar og yngra fólk, jafnvel ungmenni og unglingar sýkjast fremur en af fyrra afbrigði. Það fólk er að jafnaði heilbrigðara og hraustara og tekst á við veikindi af meiri krafti. Samt eru lagðar þyngri takmarkanir yfir land og lýð en áður hafa þekkst.

Aflahæfi fjölmargra fyrirtækja skerðist og þar með tekjur þeirra og fáar ráðstafanir sem þau geta gripið til aðrar en að segja upp fólki. Afleiðing þess kemur síðar fram en við því er að búast að atvinnuleysistölur fari hækkandi í kjölfarið.

Stjórnvöld eru ekki í öfundsverðri stöðu. Minnisblöð sóttvarnalæknis taka mið af sóttvörnum. Það eru önnur sjónarmið sem einnig þarf að hafa til hliðsjónar. Á það hefur hann sjálfur bent.

Við munum komast í gegnum þennan faraldur og kveða veiruna í kútinn. Fátæktin og neyðin verður langvinnari.