Tímabil alvarlegra og hættulegra loftslagsbreytinga af mannavöldum er hafið. Heiftarlegar hitabylgjur og þurrkar, flóð og aurskriður – það er neyðarástand í lofthjúp og lífhvolfi, neyðarástand á Jörðinni allri.

Forsætisráðherra hafði orð á þessu neyðarástandi í stefnuræðu sinni fyrir skömmu. Hún talaði um neyðarástand þrátt fyrir að ríkisstjórn hennar forðist eins og heitan eldinn að lýsa því yfir formlega. Ef ríkisstjórninni væri alvara um að loftslagsbreytingar væru neyðarástand, þá myndi hún líka hafa hugrekki til að festa afstöðuna formlega í sess í lögum eða með ályktun Alþingis. En til þess hefur stjórnarliða skort kjark.

Það ætti kannski ekki að koma á óvart. Markmið um losun hafa ekki heldur verið lögfest, þrátt fyrir að stjórnarliðar stæri sig sífellt af metnaðarfullum áformum. Þrátt fyrir fagurgalann er ómögulegt að komast að þeirri niðurstöðu að loftslagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar endurspegli nokkurs konar neyðarástand – hvað þá að þær séu metnaðarfullar.

Loftslagsráð hefur kallað áætlanir og markmið ríkisstjórnarinnar ómarkviss, óljós og ófullnægjandi. Ísland er langt á eftir áætlun: Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Umhverfisstofnunar jókst losun um 3% milli áranna 2020 og 2021. Já, þú last rétt: Losun gróðurhúsalofttegunda dróst ekki saman, heldur jókst! Ef fram heldur sem horfir eru líkurnar á því að við stöndum við skuldbindingar okkar hverfandi. Metnaðarfull áform sem aldrei verða að veruleika eru enda ekkert annað en spuni. Tíminn fyrir slíkt sinnuleysi er löngu liðinn.

Nú þarf Alþingi að stíga fram fyrir skjöldu, sýna að það taki mark á vísindunum og knýja ríkisstjórnina til nauðsynlegra róttækra aðgerða. Með því að lýsa því formlega yfir að neyðarástand ríki í loftslagsmálum yrði þannig að haga forgangsröðun og aðgerðum stjórnvalda í samræmi við það, eins og við höfum svo góða reynslu af í tilfelli annarra hamfara.