Kvikuinnskot á Reykjanesi við Þorbjörn var 3 x Þingvallavatn að stærð. Við vorum heppin að ekki gaus en það fer að styttast í gos á landinu, hvort það verður á Reykjanesi eða annarstaðar vitum við ekki. Samkvæmt fréttum á liðnu ári má búast við gosi á Reykjanesi á næstu árum eða áratugum.

Undirritaður hvetur Landsnet til að byggja ÖRYGGISNET til að tryggja Höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi öruggan raforkuflutning með 132kV jarðstrengjum frá virkjunum til notanda, einkum í neyðartilfellum ef um eldgos væri að ræða nærri Höfuðborgarsvæðinu eða á Reykjanesi. Öryggisnet „UJÖ“ (umhverfi – jarðstrengir - öryggi) sem væri jafnframt flutningsnet. Undirritaður leggur til að það verði byggt á næstu tveimur árum.

Rök sem styðja ÖRYGGISNET með 132kV jarðstrengum

  1. Árið 1990- 91 þegar Hekla gaus var talsvert öskugos svo Búrfellsvirkjun varð órekstrarhæf um tíma, þegar aska féll á tengivirki stöðvarinnar og á línur til hennar. Til að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig var byggt nýtt innitengivirki við Búrfell.
  2. Á Reykjanesi eru tengivirkin innitengivirki (sem þó þarf að rykþétta) en veiku hlekkirnir eru línurnar ásamt endatengivirkinu við Svartsengi. Eldgos gæti orðið í Bláfjöllum eða á Reykjanesi og aska fallið á einangrara línanna (auk annarrar fokákomu) ásamt hraunrennsli á línustaura, sem leiðir þá til rafmagnsleysis. Raforkukerfi með bæði línum og jarðstrengjum er mun öruggra og kemur mun frekar í veg fyrir rafmagnsleysi, heldur en þar sem eru tvær línur samhliða!
  3. Landsnet kallaði í síðustu „Kerfisáætlun 2020- 2029“ eftir öruggri fæðingu inn til Hamraness með nýrri Suðurnesjalínu 2 (220kV) frá Reykjanesvirkjunum, auk sérstakrar eflingu á 132kV kerfinu í Hamranesi, sem þaðan er flutt til Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Kópavogs og Reykjavíkur. Einnig kallaði Landsnet eftir öflugri 132 kV fæðingu inn til Höfuðborgarinnar bæði frá Geithálsi og frá Hnoðraholti, með stækkun spenna 220/132kV (eða fjölgun þeirra) bæði á Geithálsi og í Hamranesi - væntanlega vegna þéttingu byggðar á Höfuðborgarsvæðinu með aukinni rafmagnsnotkun.
  4. Alls staðar á landinu henta jarðstrengir með 132kV spennuhæð til öruggs raforkuflutnings fullkomlega fyrir íbúðabyggð ásamt iðnaði, í Höfuðborginni, á Akureyri (með 60MW til Bekromal), til Bakka (með 60 MW) og Húsavíkur og einnig á Reykjanesi.
  5. 220kV spennuhæð er aftur á móti alls staðar á landinu notuð fyrir álver: á Reyðarfirði, í Hvalfirði og í Straumsvík. Nýtt álver er ekki á leiðinni í Helguvík svo ný Suðurnesjalína 2 með 220kV spennuhæð er óþörf þangað til að álver kemur þar, en þá þurfa að liggja þangað tvær 220kV línur til Helguvíkur sérstaklega fyrir álverið (með tveimur 220kV jarðstrengjum frá Fitjum til Helguvíkur).
  6. Heildar raforkuframleiðsla á Reykjanesi er um 155MW og með stækkun Reykjanesvirkjunar fer hún í 185MW. Raforkunotkun í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum er í dag um 100MW af því leiðir að raforkuframleiðslan á Reykjanesi mun endast Reykjanesbæ og Suðurnesjum í um 50 - 70 ár miðað við 1 -1,5 % aukningu raforkunotkunar. Suðurnesjalína 1 132kV getur flutt um 200MW og hún er lítið lestuð með um 50MW flutning til Hamraness og hann stefnir í 0 MW, með aukinni raforkunotkun í Reykjanesbæ. Af því leiðir að aðeins vantar nýja Suðurnesjalínu 2 sem varalínu til þess að flytja þessi 50MW sem fara minnkandi til Hamranes. Ný Suðurnesjalínu 2 sem væri 132kV jarðstrengur með 180MW flutningsgetu væri fullnægjandi næstu 50- 70 árin!
  7. 100MW gagna- eða kísilver í Reykjanesbæ eða í Helguvík, rúmast á Öryggisnetinu, á 132kV Suðurnesjalínum 1 og 2 næstu 50-70 árin.!
  8. Raforkunotkun á Reykjanesi er fjórðungur af raforkunotkun í Höfuðborginni og að auki eru á Reykjanesinu miðju, tvær tiltölulega stórar virkjanir 155MW auk væntanlegrar stækkunar Reykjanesvirkjunar í alls 185MW. Af þessu leiðir að 132kV raforkukerfi eru ekki síður nothæft á Reykjanesi en í Höfuðborginni sjálfri.
  9. Til þess að „Öryggisnetið“ virki fullkomlega sérstaklega í neyðartilfellum, þarf það að vera byggt upp af bæði línum og jarðstrengjum hlið við hlið. Það verður að vera með 132kV jarðstrengjum, því 220kV jarðstrengir eru hvorki tæknilega né fjárhagslega nothæfir í það, á þessum stað í raforkukerfinu. Jafnstraumsjarðstrengir eru tæknilega hæfir í þetta en koma peningalega varla til greina, en verð fer þó lækkandi eftir því sem best er vitað.
  10. Sprungur í Reykjanesbraut hafa ekki sést, svo vitað sé frá því að Reykjanesbrautin var byggð, því þarf ekki að hræðast lagningu jarðstrengs meðfram Reykjanesbraut!

Lýsing Öryggisnetsins: Það væri jarðstrengir á 132kV, sem lægju frá Nesjavallavirkjun (en hann hefur þegar verið lagður þaðan til Geitháls) og frá Hellisheiðarvirkjun (þar sem settur væri 220/132kV spennir) til Geitháls með sex rofa innitengivirki þar (ætti að vera niðurgrafið svo snjór safnist ekki vestan þess og inn í tengivirkið) tengt Höfuðborginni með jarðstrengjunum (KO1-AD3 og RV1). Frá Geithálsi lægi svo jarðstrengur til Hamraness meðfram Hamraneslínum 1 og 2 en á landamörkum Kópavogs og Garðabæjar væri jarðstrengurinn tengdur Hnoðraholti (Hnoðraholtslínan AD7 yrði jafnvel tekin niður síðar). Í Hamranesi tengdist Öryggisnetið Hafnarfirði með jarðstrengjunum HF1, HF2, SF1 og Hnoðraholti með línunni AD7 á meðan hún væri í notkun. Frá Hamranesi yrði svo lagður jarðstrengur út Reykjanesið, Suðurnesjalína 2, og til Fitja. Þaðan lægi svo jarðstrengur til Rauðamels og þaðan tengt með jarðstrengjum bæði til Svartsengisvirkjunar og til Reykjanessvirkjunar.

-----

Landsnet hefur sofið á verðinum, trassað uppbyggingu og úrbætur raforkukerfisins víða á landinu, til viðunandi öryggis eins og eftirfarandi dæmi sýna.

Árið 2012 í óveðri þegar álverið í Hvalfirði varð straumlaust í 3,5 tíma, þá munaði ekki nema 30 mínútum að álverið yrði ónýtt (u.þ.b. 80% hluti þess). Hvað hefði það kostað ef Landsnet hefði orðið þess valdandi að álverið hefði orðið ónýtt?

Síðastliðinn vetur (2020) í óveðrinu sem gekk yfir Norðurland og Landsnet hafði ekki hugsað fyrir varalínum til byggðarlaganna á Norðurlandi, svo straumlaust varð er gamlar línur fyrirtækisins fuku um koll og hvorki jarðstrengir né varaafl var til staðar. Kostnaður landsbyggðarinnar á Norðurlandi í þessu áfalli hefur ekki verið metinn svo vitað sé. En viðgerðarkostaður Landsnets var um 400 milljónir og í dag er Landsnet að kaupa varaaflvélar (sem er neyðarúrræði) fyrir um 600 milljónir (áætlun undirritaðs) alls um 1 milljarður. Þessi milljarður hefði fyrir löngu átt að vera kominn í jörðina sem jarðstrengur/ir.

Í dag er Höfuðborgarsvæðið og allt Reykjanesið illa varið fyrir áföllum eins og öskufalli og hraunrennsli og áfoki ýmiskonar. Hver yrði kostnaðurinn ef Höfuðborgarsvæðið og Reykjanes yrðu straumlaus vegna öskufalls og hraunrennslis á háspennulínur svæðisins?

-----

Undirritaður gerir eftirfarandi tillögur og athugasemdir við Kerfisáætlun Landsnets 2020- 2029:

A) Að Landsnet geri úrbætur á tengivirkinu á Brennimel sem dugi til þess að tryggja rekstraröryggi svo straumleysi eins og varð 2012 endurtaki sig ekki. Að Landsnet fari ekki út í það að byggja nýtt 220kV tengivirki við Klafastaði (í nágrenni álversins) eins og talað er um í kerfisáætlun Landsnets 2021- 2030.

B) Að Landsneti leggi jarðstrengi til byggðarlaganna á Norðurlandi þeirra sem illa urðu úti sl. vetur 2020, sem ekki er sýnilegt í Kerfisáætlun fyrirtækisins 2021- 2030 en jarðstrengir þangað væru fullkomin lausn til framtíðar. Um þessar mundir vinnur Landsnet að uppsetningu varaafls á Norðurlandi sem er frekar í ætt við bráðabyrgðar rárstöfun en til framtíðar.

C) Að Landsnet byggi „Öryggisnet“ eins og hér er lagt til, með lagningu 132kV jarðstrengja frá virkjunum (í nágrenni Höfuðborgarinnar) til Höfuðborgarinnar og til Reykjanesbæjar og virkjananna þar. Það mun bæta raforkukerfið á Höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi flutnings- rekstrar- og öryggislega umfram fyrirhugaðar 220kV línur Landsnets, Lykklafellínu 1 220kV, Suðurnesjalínu 2 220kV og 220kV stækkunina sem henni fylgir bæði á Njarðvíkurheiði og í Hamranesi.

D) Að Landsnet hætti við áform sín um byggingu Suðurnesjalínu 2 sem 220kV línu og spennu hækki ekki raforkukerfið á Suðurnesjum í 220kV með nýju 220kV tengivirki á Njarðvíkurheiði, (nýtt tengivirkishús tveir 220/132kV spennar auk fjölda afl- og teinrofa) ásamt 220kV stækkun í Hamranesi (stækkun húss í báða enda, með nýjum spennir 220/132kV auk fjölda afl- og teinrofa bæði á 220kV og 132kV), ásamt 220kV jarðstreng 6- 18 km gegnum Kapelluhraunið og inn í gegnum Hafnarfjörð og til Hamranes (6 km væri eðlileg krafa Hafnarfjarðarbæjar og 18 km ef að seinna kæmi flugvöllur í Kapelluhrauninu).

Eftirfarandi rök styðja athugasemd D;

Nr. 1) Þar sem að 220kV línur og spennuhækkun tilheyri álverum og þá þurfi tvær línur sérstaklega fyrir það, sem gætu mögulega verið sambyggðar (á einni stæðu). Einnig eru framleiðsluhættir álvera að breytast, með tilliti til forgangsorku en þá væri mögulegur, jafnstraumsjarðstrengur fyrir það í stað tveggja 220kV lína. Einnig er óvíst hvort álver kemur og þar af leiðandi er ekki rétt að gera ráð fyrir 220kV línu núna (sjáið rök í nr. 4 og 5 hér fyrir ofan).

Nr. 2) Þar sem að 220kV áformin eru mjög takmörkuð varðandi öruggan rekstur samkvæmt kerfisáætluninni. Þar sem aðeins er áætlað að setja varalínu fyrir eina af fjórum háspennulínum á Reykjanesi og ekki áætlað að leggja neinar varalínur til Svartsengis- og Reykjanesvirkjunar, til að tryggja traustan raforkuflutning þaðan.

Nr. 3) Þar sem að 132kV kerfi (ásamt Öryggisnetinu) er fullnægjandi á Reykjanesi þar áfram til að flytja þau 0 - 50MW sem nú eru flutt til Hamranes frá Suðurnesjum og muni duga í það áfram næstu 50- 70 árin með Suðurnesjalínu 1 og nýrri Suðurnesjalínu 2 132kV (sjá rök í nr. 3, 6 og 7 hér fyrir ofan).

Nr. 4) Þar sem ekki er skynsamlegt að breyta 132kV raforkuframleiðslunni frá virkjununum á Reykjanesi úr 132kV (sem er afhendingarspenna virkjananna) í 220kV í væntanlegu tengivirki á Njarðvíkurheiði til þess svo að flytja það á 220kV um 40 km leið, til þess svo að breyta því aftur úr 220kV í 132kV í Hamranesi, þar sem þörfin þar er fyrir orku á 132kV spennu, sem svo á að flytja til Hafnarfjarðar og Hnoðraholts (Garðabæjar, Kópavogs og til Reykjavíkur) samkvæmt Kerfisáætlun Landsnets 2021- 2029!

Nr. 5) Þar sem ekki er skynsamleggt að flytja 0- 50MW á 220kV línu með 600MW flutningsgetu, sem yrði milli 0 til 5% af flutningsgetu þeirrar línu sem muni verða þannig næstu 50 – 70 árin (sjáið rök í nr. 3, 6 og 7 hér fyrir ofan)“. Það sé eins og að kaupa rútu fyrir fjölskylduna, þegar 5 manna fjölskyldubíll sem væri vandaður, öruggur og á sanngjörnu verði, hentaði!

Nr. 6) Þar sem ekki er skynsamlegt að leggja Suðurnesjalínu 2 sem línu, ef að flugvöllur kæmi í Kapelluhrauni.

Nr. 7) Þar sem ekki er skynsamlegt fjárhagslega, en samanburður er eftirfarandi; 220kV Suðurnesjalína 2 ásamt 6 km jarðstreng gegnum Hafnarfjörð og jafnvel 18 km (ef að flugvöllur kæmi í Kapelluhrauni) og 132kV Suðurnesjalína 2 sem jarðstrengur alla leið, þá væri 132kV jarðstrengur talsvert ódýrari og honum fylgja talsverðir kostir sem eru bæði af skipulagslegum, tæknilegum, öryggislegum og útlitslegum toga, sem allir eru mjög mikils virði. Aukakostnaður við byggingu Suðurnesjalínu 2 220kV með 6- 18 km jarðstreng í gegnum Hafnarfjörð, byggingu 220kV tengivirki á Njarðvíkurheiði auk stækkunarinnar í Hamranesi, yrði um það bil 15- 20 milljarðar. Samanburður er fenginn frá stækkun um einn rofareit (án stækkunar tengivirkishússins) í Búrfellstengivirki 2018 fyrir 650 milljónir.

Nr. 8) Þar sem ekki er forsvaranlegt með tilliti til umhverfisinns og því kolefnisspori sem af framkvæmdinni hlýst, sem talið væri í milljónum/milljörðum tonna af koltvísýringi.

Nr. 9) Þar sem ekki er forsvaranlegt gagnvart náttúru Reykjanesskagans útlitslega og þeirra sem hennar vilja njóta að leggja nýja 220kV háspennulínu út Reykjanesið. Því þá væru í framtíðinni tvær háspennulínur út Reykjanesið og ef álver kæmi, þá lægju þangað, þrjár til fjórar háspennulínur, ásamt talsverðu byggingarmagni á Njarðvíkurheiðinni, þetta hljóta allir að sjá!

Þessu tengt: Undirritaður fór á Vellina í Hafnarfirði og nágrenni Hamnes, svæðið er orðið eins og kalla mætti „rafmagns ruslahauga“ og það á enn eftir að versna með tilkomu nýrrar Suðurnesjalínu 2 ef hún verður samþykkt sem lína! Vellirnir eru fallegt byggingarland og íbúðarhverfi en þjónkun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar við Landsnet er með ólíkindum þar sem ekki er hugsað um hag íbúana né framtíð bæjarfélagsins. Einnig er tregða Landsnets til jarðstrengslagna á svæðinu óskiljanleg og það virðingarleysi gagnvart umhverfinu sem þar birtist ásamt greinilegum skorti á faglegum vinnubrögðum! Bæjarstjórnin hefur tekið undir og samþykkt nýjar línur til Hamranes, þegar hún hefði aftur á móti átt að krefja Landsnet um það að fjarlægja allar línur (en þó ekki Ísallínu 1 og 2 til Straumsvíkur því samningur um álverið rennur út eftir 14 ár) úr framtíðar byggingarlandi bæjarins til austurs, suðurs og vesturs. Þetta væri gert með því að stytta þær línur sem liggja til Hamranestengivirkis um nokkra kílómetra og leggja jarðstrengi í stað þeirra! Hamranestengivirkið er hannað til og ætlað til þess að vera inni í byggð og sem dæmi þá eru hliðstæð tengivirki inni í miðri Parísborg á annari hæð við breiðgötu. Hamranestengivirkið er að stærð og rofa fjölda ásamt mikilvægi, eitt af þremur stærstu tengivirkjum landsins (sem auk þess sem stækka má það) og það dýrasta, það er tuga milljarða virði og endingartíminn er minnst 100 ár. Tengivirkið er innivirki (allur rofabúnaður er SF6 innibúnaður) og til þess að það nýtist eins og það er hannað til, að vera staðsett inni í byggð, þá þurfa allar línur sem til þess liggja að enda sem jarðstrengir! Staðsetning fyrir jarðstrengi tæknilega og notkun þeirra á þessum stað í raforkukerfinu, er önnur besta í raforkukerfi landsinns.

Í dag er Landsnet að leggja jarðstrengi til og frá Akureyri í nýju Byggðalínunni, þökk sé fyrirtækinu. Auk þess er Landsnet að fjarlægja Korpulínu úr byggingarlandi Reykjavíkur og setja hana í jörð sem einnig er nauðsýnleg aðgerð. En eins og málin ganga fyrir sig í Hafnarfirði í dag er framganga Landsnets ekki eðlileg. Hvað þætti lesanda þessa pistils og jafnframt íbúa í Reykjavík, ef enn lægi háspennulína eftir Hraunbænum framhjá Árbæjarsafninu niður eftir Ártúnshöfðanum og niður að Ártúni í Elliðaárdalnum (en hún var lögð í jörðina fyrir 30 árum)? Umhverfisverndarfólk hefur spurt „hvers vegna er Landsnet svona?“ í sambandi við jarðstrengslagnir í málefnum Hafnarfjarðar og alls Reykjanesskagans auk annarar framgöngu fyrirtækisins á landsvísu og spurningunni er enn ósvarað.

-----

Þegar „Öryggisnetið“ verður komið í gagnið (sem einnig er flutningsnet) mætti fjarlægja Hnoðraholtslínu AD7 ásamt því að þörfin fyrir Lyklafelslínu 1 220 kV (eða 420kV) og nýja Suðurnesjalínu 2 (sem 220kV línu) væri engin næstu áratugina, ekki fyrr en og ef byggja ætti álver í Helguvík. En þá væri mögulegt að álverið í Straumsvík væri hætt starfsemi (því samningurinn rennur út 2036) svo nota mætti Hamraneslínurnar (HN1 og HN2) eða línustæði þeirra í staðinn fyrir Lyklafelslínu 1 sem væri úrvals lausn. En lagning Lyklafellslínu 1 (220 eða 400, 420, 440kV) í Búrfellshrauni ofan vatnsbóla Höfuðborgarinnar er óæskilegt jafnt á byggingartíma sem á líftíma línunnar. Það sem einnig gerir Lykklafelslínu 1 óþarfa er að báðar Hamraneslínurna 1 og 2 ásamt Búrfellslínau 3B sem liggja á sama svæði (má heita milli sömu tengivirkja/tengipunkta) eru lítið lestaðar og eru aðeins að flytja um 1/5 (1/10 BU3B) af sinni raunverulegu flutningsgetu, sem þær eru hannaðar fyrir.

Landsnet hefur aldrei sýnt með rökum fram á flutningsþörf þeirra lína sem stendur til að byggja, hversu mikið hvaðan og hvert eigi að flytja orkuna þetta á við um Suðurnesjalínu 2, Lykklafellslínu 1, Blöndulínu 3 og Kröflulínu 3. Einnig passar Landsnet sig á því að sýna ekki á heimasíðu sinni „Aflflutningur núna“ flutning núverandi lína, sérstaklega á þeim svæðum þar sem til stendur að byggja á nýjar línur. Fyrirtækið kemur fram í fjölmiðlum og kastar fram órökstuddum fullyrðingum um stórfeldan rafmagns- og línuskort í landinu. Nær væri að Landsnet, fyrirtæki í opinberri eigu myndi fræða og upplýsa eigendur sína almenning og sýna fram á með rökum þörfina sem væri sjálfsögð og eðlileg krafa, áður en farið er í dýrar framkvæmdir sem raska náttúrunni og greiddar eru af almannafé.

Áratugurinn 2021 til 2030 er áratugur Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa sem er hafinn, áratugurinn er ákall um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru, þar sem rík áhersla er lögð á samvinnu og samstarf um að setja móður jörð alltaf í fyrsta sætið.

Ef Íslendingar vilja virða og taka þátt, þá hvorki ræsum við fram meira land - né byggjum fleiri háspennulínur, ef mögulega má komast hjá því.

P.S. Skilaboð til Landsnets „eigum heiðarlegt samtal við fólkið í landinu, förum að lögum og förum af neyðarstigi“!

Kópavogi 17. febrúar 2021, Örn Þorvaldsson.

Undirritaður er rafiðnaðarmaður og fyrrverandi starfsmaður Landsvirkjunar og Landsnets sem unnið hefur að uppbyggingu raforkukerfisinns og viðhald þess frá árinu 1968.