Fyrir tveimur árum síðan samþykkti Alþingi að ráðherra sem fer með málefni er varða orkumál og auðlindanýtingu vinni að orkuskiptum með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa sem hafi í för með sér orkusparnað, aukið orkuöryggi, gjaldeyrissparnað, minni staðbundna mengun og minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Í Fréttablaðinu um síðustu helgi birtust auglýsingar á níu síðum um nýja bíla sem Íslendingum býðst að kaupa á vordögum 2019. Þessar auglýsingar bera engin merki þess að samþykkt Alþingis hafi verið tekin alvarlega af stjórnvöldum, af bílaumboðunum og af almenningi. Eingöngu eru auglýst ökutæki sem knúin eru áfram með jarðefnaeldsneyti, bæði dísel og bensíni. Þetta eru ökutæki sem mörg hver verða á götunni fram til 2030, árið sem Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að losun gróðurhúsalofttegunda frá vegsamgöngum hafi dregist saman um 50 %. Losunin er enn að vaxa þrátt fyrir ótal yfirlýsingar um aðgerðir til að snúa við á nýja og betri braut. Um 80 % nýskráðra ökutækja eru enn algjörlega drifin með bensíni eða dísel og aðeins lítill hluti gengur fyrir endurnýjanlegri orku eingöngu. Ef ná á settum markmiðum þarf losun frá vegsamgöngum að dragast saman um 6 % árlega á næstu 10 árum. Því lengur sem það dregst að snúa þróuninni við því erfiðar verður að ná eðlilegu, raunhæfu, nauðsynlegu og líklega þjóðhagslega hagkvæmu markmiði um helmingi minni losun.

Mikið af þeim bílum sem auglýsir eru auk þess stórir og eyðslusamir díselbílar sem eiga drjúga hlutdeild í því að fjölga þeim dögum sem loftgæði á Akureyri og Reykjavík eru langt fyrir neðan viðmiðunarmörk. Talið er að slæm loftgæði valdi ótímabærum dauða um 60 Íslendinga á ári og auki þjáningar margra annarra sem glíma við lungnasjúkdóma, ekki síst barna sem með astma.

Ef allt væri eðlilegt hefðu helgarblöðin átt að vera uppfull af auglýsingum er fjalla um fjölbreyttan samgöngumáta: almenningssamgöngur; rafhjól; vagna fyrir hjól; létta göngustrigaskó og góðan hlífðarfatnað eða sparneytin ökutæki sem knúin eru endurnýjanlegum orkugjöfum; Þannig má með tímanum bæta lýðheilsu með betri loftgæðum, færri umferðarslysum og aukinni hreyfingu sem óhjákvæmilega fylgir fjölbreyttum ferðamáta.

Það virðist því ríkja því veruleikafirring í innflutningi á ökutækjum til Íslands um þessar mundir. Við því þarf að bregðast tafarlaust svo mark sé takandi á yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er í húfi. Staðan er svo alvarleg að aðalfundur Landverndar 30. apríl sl. skoraði á íslensk stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga. Landvernd leggur einnig til að bannað verði að flytja ökutæki til landsins sem knúin eru kolefnaeldsneyti frá árinu 2023 og kolefnisgjöld verði hækkuð umtalsvert. Ég hvet íslensk stjórnvöld til þess að fara vandlega yfir tillögur aðalfundar Landverndar um hertar aðgerðir í loftslagsmálum og nýta þær til þess að sýna í verki að þau taka loftslagsvandann alvarlega. Án þess munum við eiga von á fleiri helgarblöðum uppfullum af gylliboðum til neytenda um fjárfestingar í ökutækjum sem tilheyra fortíðinni.

Höfundur er formaður Landverndar.