Eitt af því sem einkennir snjalla handritshöfunda er hæfileikinn til að halda söguþræðinum gangandi jafnvel þótt komið sé talsvert inn í þáttaröðina, áhuginn aðeins farinn að dvína og plottið að þynnast. Þá gildir að vera útsjónarsamur, finna nýja vinkla og kynna til leiks nýjar persónur.

Minnisblöð sóttvarnalæknis eru ágætis dæmi um þetta. Óhætt er að segja að þjóðin hafi lengi vel setið límd yfir framvindu þeirra, en eins og gengur hefur smám saman dregið úr áhorfi og margir farið að kalla eftir því að framleiðslunni verði hreinlega hætt. Allt þar til nýjasta vendingin kom. Nú er ógnvaldurinn nefnilega ekki lengur bara kórónaveiran heldur snúa gamlir góðkunningjar sóttvarnalöggunnar aftur: RS-vírusinn og inflúensan. Þegar þessi þrenna leggur saman krafta sína er voðinn vís og ljóst að allt getur gerst.

Þetta opnar fléttuna upp á gátt og spennan í kringum afléttingarnar lifir áfram, jafnvel út þennan vetur.

Varfærni borgar sig

Ekki misskilja mig, Þórólfur er vitaskuld fyrir löngu búinn að sanna sig sem þjóðhetja okkar Íslendinga, kom okkur ekki bara í gegnum faraldurinn heldur var hann í raun nokkurs konar landstjóri hér síðustu misserin. Þótt einhverjum þyki hann tregur til afléttinga er hann bara að vinna vinnuna sína, gæta að því að við förum frekar með gát en of geyst af stað. Hann veit líka sem er að ef ástandið fer úr skorðum síðar meir þá beinast böndin að honum.

Þessi hugsun er ráðandi í dag. Að vera frekar aðeins of varkár en of kærulaus. Hættustigið er því víða hátt stillt. Bara við það eitt að fara inn á heimasíðu Veðurstofunnar og kíkja á spá morgundagsins, skella á manni ótal viðvaranir. Raunar er yfirlýst neyðarástand á nokkuð mörgum sviðum samfélagsins: í umhverfismálum, á fasteignamarkaði, í lýðheilsumálum, vegna skjánotkunar barna, í samgöngumálum og í heilbrigðiskerfinu, svo eitthvað sé nefnt. Neyðarástand hefur að mörgu leytið tekið yfir sem almenn lýsing á því að úrbóta sé þörf, enda hefur enginn þolinmæði fyrir einhverjum óræðum langlokum um að ástandið sé „vandasamt“ eða „það geti brugðið til beggja vona“. Þannig málflutningur kæmist varla í tíufréttirnar. Það er miklu afdráttarlausara og líklegra til árangurs að lýsa yfir neyðarástandi og krefjast tafarlausra aðgerða.

Eitt útilokar annað

Yfirleitt þegar ég heyri að það sé neyðarástand finnst mér að ég þurfi að bregðast við. Gera eitthvað, sýna einhver viðbrögð eða hegðun til að leggja mitt lóð á vogarskálarnar. En það er ekki alltaf augljóst hvað eigi að gera. Neyðarástand á einu sviði getur útilokað neyðarástand á öðru sviði. Til að bregðast við neyðarástandi á fasteignamarkaði er lagt til að brjóta nýtt landsvæði undir byggð. Það fer hins vegar ekki vel saman við neyðarástand í umhverfismálum þar sem draga þarf úr ferðum og akstri eins og kostur er og byggja þétt. Hið sama má segja um flugsamgöngur – við ættum að reyna að minnka þær vegna neyðarástands í loftslagsmálum en þá vandast leikar því fyrr á árinu var hér neyðarástand í atvinnumálum vegna þess hve fáir ferðamenn komu til landsins. Við þurfum því að forgangsraða einu neyðarástandi umfram annað.

Nýr tónn

Í sinfóníu opinberra aðvarana um neyð og hættustig kvað við nokkuð nýjan tón um daginn þegar forsætisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið gáfu saman út minnisblað sem rataði í fjölmiðla. Þar var fjallað um takmarkanir vegna sóttvarna og bent á að hlutfall þeirra sem hafa látist af Covid frá 1. ágúst síðastliðnum sé 0,06 prósent af þeim sem hafa greinst með veiruna. Enn fremur kom fram að leggja þyrfti gagnrýnið mat á hvað sé áunnið með takmörkunum annars vegar og hins vegar hverju sé til kostað og hversu mikils virði sú fórn væri.

Umboðsmaður neföndunar

Þetta er áhugaverð hugsun sem heyrist ekki oft og hefur víðari skírskotun. Á tímum stöðugs neyðarástands þarf að vega og meta hve miklar fórnir við getum fært. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það ætti að stofnanavæða þessa nálgun. Sem mótvægisaðgerð við allar áhyggjurnar yrði komið á fót embætti umboðsmanns þeirra sem vilja anda með nefinu? Embættið myndi tala fyrir því að þótt hinn venjulegi borgari sé allur af vilja gerður til að leggja sitt af mörkum þá séu takmörk fyrir því hversu lengi sé hægt að búa við takmarkanir, skerðingar og stöðugt hættustig. Þetta væri embættismaður sem myndi skila bjartsýnum umsögnum um frumvörp, gefa út minnisblöð um mikilvægi þess að vera léttur og minna þingnefndir á að hlutirnir hafa tilhneigingu til að bjargast. Lógó embættisins yrði fjölskylda að horfa á Netflix og borða nammi og af því að öll opinber embætti velja sér gildi, þá yrðu gildi þessa embættis kæruleysi, bjartsýni og „þetta reddast“.