Endataflið virðist loksins hafið hjá WOW air en slitnað hefur upp úr viðræðum við bandaríska fjárfestingarsjóðinn Indigo Partners. Horft í baksýnisspegilinn má segja að flest hafi bent til þess að sú yrði raunin í nokkurn tíma.

Á fimmtudagskvöld var tilkynnt að WOW air og Icelandair hefðu hafið viðræður aftur. Fyrirséð var að sú tilkynning myndi valda miklum sviptingum á hlutabréfaverði Icelandair. Bréf félagsins í Kauphöllinni hækkuðu skarpt í gær, en bréf annarra félaga lækkuðu, enda fregnir af rekstrarvandræðum WOW air ofan í verkfallsástand áhyggjuefni fyrir markaðinn í heild.

Við erum farin að þekkja þessa hringrás, enda hefur WOW róið lífróður um margra mánaða skeið, og markaðurinn sveiflast með. Það sem er hins vegar nýtt í þetta skiptið, er að í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar frá því á fimmtudag fylgdu skilaboð frá stjórnvöldum. Þar kom fram að stjórnvöld fylgist grannt með framvindunni og bindi vonir við að viðræður félaganna muni skila farsælli niðurstöðu. Varla þýðir þetta annað en að endaleikurinn sé raunverulega hafinn.

Í vikunni var sagt frá því hér í blaðinu að WOW Air hefði farið fram á að ríkið myndi ábyrgjast tilteknar skuldir félagsins. Fjármálaráðherra hefur ítrekað sagt að slíkt komi ekki til greina. Ríkið ábyrgist ekki skuldir einkaaðila.

Félögin tvö gefa sér ekki langan tíma til verksins en stefnt er á að viðræðunum verði lokið á mánudaginn. Úrslitin ráðast því líklega um helgina, klukkan tifar. En hverjir eru kostirnir ef litið er blákalt á málið? Væntanlega eru engar líkur á því að Icelandair taki yfir kennitölu og rekstur WOW í núverandi mynd án aðkomu ríkisins, til dæmis í formi fyrrgreindrar ábyrgðar.

Áhættan væri einfaldlega alltof mikil og tíminn til að ganga úr skugga um helstu áhættuþætti of skammur. Án aðkomu ríkisins er því væntanlega eina færa leiðin til skamms tíma að Icelandair kaupi lífvænlegar eignir úr búi WOW, sem síðan verði sett í skiptameðferð. Þar er væntanlega með nokkurri einföldun um að ræða flugvélasamninga félagsins og vörumerkið. Annað verði látið lönd og leið. Sú leið kann þó að
reynast torfær sömuleiðis enda samningsstaða leigusala Airbus-vélanna sterkari en áður vegna vandræða keppinautarins Boeing.

Þótt saga WOW sé sennilega að fá sorglegan endi, er ekki þar með sagt að stjórnendur og þá sérstaklega stofnandinn sjálfur eigi að læðast með veggjum. Skúli Mogensen hefur lagt allt undir í ævintýrið og átt stóran þátt í íslenska ferðamannavorinu. Ávinningurinn af því er varanlegur þótt mögulega muni hægjast eilítið á um stund. Þeir sem tefla djarft, geta uppskorið ríkulega en líka lent illa í því. Samfélagið þarf á slíku fólki að halda. Við munum fylgjast með um helgina með öndina í hálsinum. Hið jákvæða er að nú loks virðist von til þess að botn fáist í málið, og því gæti óvissuþáttunum í íslensku efnahagslífi fækkað um einn.