Kosningar fóru fram í Bretlandi í vikunni. Ber flestum saman um að kosningabaráttan hafi verið rislítil. Ekki skorti hins vegar á lægðirnar sem sumar þóttu ansi djúpar. Ein sú krappasta reið yfir fjórum dögum fyrir kosningar þegar ljósmynd birtist í dagblöðum af fjögurra ára dreng sem lá í keng á gólfi sjúkrahúss í Leeds klæddur Spiderman náttfötunum sínum með súrefnisgrímu fyrir andlitinu. Drengurinn hafði verið fluttur á spítalann með sjúkrabíl en talið var að hann væri með lungnabólgu. Vegna anna á spítalanum var ekki laust rúm og þurfti drengurinn að liggja á gólfinu klukkutímum saman er hann beið þess að fá aðhlynningu.

Heilbrigðiskerfið var eitt af helstu málum sem brann á kjósendum í nýafstöðnum kosningum í Bretlandi. Myndin sem olli hneykslan undirstrikaði fjársveltið sem heilbrigðiskerfið hefur þurft að þola síðustu ár. Ekki vildu þó allir horfast í augu við vandann.

Boris Johnson var í sjónvarpsviðtali þegar fréttamaður dró upp símann sinn og sýndi honum myndina af drengnum á spítalagólfinu. Boris Johnson neitaði að líta á myndina. Þótt Johnson reyndi ítrekað að skipta um umræðuefni gaf fréttamaðurinn sig ekki. Að endingu hrifsaði forsætisráðherrann símann af fréttamanninum og stakk honum í vasann.

Botninum var þó ekki náð því ekki leið á löngu uns notendur samfélagsmiðla hallir undir Íhaldsflokkinn tóku að birta samsæriskenningar um að ljósmyndin hefði verið fölsuð, sett á svið í þeim tilgangi að koma höggi á íhaldið. Dularfull færsla sem sögð var skrifuð af vinkonu hjúkrunarfræðings sem starfaði á spítalanum fór eins og eldur um sinu. Konan hélt því fram að hjúkrunarfræðingurinn hefði séð móður drengsins taka hann úr sjúkrarúmi, leggja hann á gólfið til að taka mynd og svo lagt hann aftur í rúmið.

Myndin var hins vegar ekki fölsuð. Forsvarsmenn spítalans staðfestu að drengurinn hefði þurft að liggja á gólfinu og báðust afsökunar á aðstöðuleysinu. En allt kom fyrir ekki. Lygin hafði öðlast sjálfstætt líf og flakkar enn um samfélagsmiðla þar sem íhaldsmenn ata móður veiks drengs auri.

Alræmdur skíthæll

Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn sem svipti hulunni af meintum mútugreiðslum sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Namibíu, var í viðtali við Kastljós fyrr í vikunni. Var Jóhannes spurður út í viðbrögð Samherja við málinu sem hafa helst virst felast í ítrekuðum tilraunum til að sverta mannorð Jóhannesar. „Þeim er velkomið að reyna að villa um fyrir fólki,“ sagði Jóhannes af stillingu.

Isaac Newton er flestum kunnur. Newton var einn fremsti vísindamaður sögunnar. Hann var líka alræmdur skíthæll. Hann var undirförull og hörundsár egóisti sem lagði sig fram við að eyðileggja orðspor annarra vísindamanna um leið og hann upphóf sjálfan sig. Annar frægur skíthæll var nóbelsverðlaunarithöfundurinn V. S. Naipaul. Þegar Naipaul lést í fyrra, 85 ára að aldri, spratt upp umræða um hvort hægt væri að aðgreina persónu rithöfundarins frá afrekum hans en Naipaul var þekktur fyrir hroka, kynþáttahatur, kvenfyrirlitningu og ofbeldi gegn konum.

Því miður, fyrir forsvarsmenn Samherja, skiptir spurningin ekki nokkru máli þegar kemur að stóra mútumálinu. Tilraunir breskra íhaldsmanna til að sverta mannorð móður veiks drengs gerðu ekki annað en að beina sjónum að innræti þeirra sjálfra. Þótt Samherjamenn eyði hverjum einasta milljarði sem þeir hafa grætt á nýtingu náttúruauðlinda Íslendinga í þjónustu almannatengslafyrirtækja mun þeim aldrei takast að hreinsa mannorðið með því að ata aðra auri. Því hvort sem Jóhannes Stefánsson er móðir Teresa endurholdguð eða sjálfur skrattinn breytir það ekki staðreyndum málsins. Við getum strokað Ísak Newton út úr sögubókunum fyrir að vera skíthæll. Slíkt hefur þó engin áhrif á virkni þyngdaraflsins.