Ekki er eðlilegt að boð komi að ofan um það hversu margir einstaklingar megi koma saman við ákveðnar athafnir og hversu margir megi vera í búðum og á veitingastöðum. Þetta eru dæmi um þau höft og bönn sem einstaklingar hafa búið við á Covid-tímum og ætlast er til að þeir taki hátíðlega án þess að spyrja krefjandi spurninga.

Covid-tíminn hefur sýnt okkur fram á margt, meðal annars það hversu auðvelt er að hræða fólk og gera það svo auðsveipt að það fer jafnvel að líta á óeðlilegt ástand sem venjulegt.

Höft og bönn eru ekki við lýði í sama mæli og áður en fyrirfinnast þó enn, jafnvel þótt þjóðin komist nálægt því að eiga heimsmet í bólusetningum. Er til dæmis sjálfsagt að loka móður og níu ára dóttur hennar inni í litlu herbergi, svalalausu, á sóttvarnahóteli í tíu daga?

Stúlkan er með Covid en móðirin ekki og smitast ekki af dóttur sinni. Dóttirin er með afar góða skapgerð og tryllist ekki við innilokunina heldur reynir að sætta sig við frelsissviptingu, þótt hún bresti vitanlega í grát í fangi móður sinnar. Þetta er stúlka sem hefur unun af íþróttum og nýtur þess að hreyfa sig. Hún skal læst inni dögum saman.

Það hlýtur að vera rétt að spyrja hvort svona grimmileg aðgerð sé virkilega nauðsynleg. Nei, er svarið.Hversu oft hefur ekki verið margtuggið ofan í okkur að við þurfum að lifa með Covid?

Samt er eins og aðgerðir miðist að því að uppræta veiruna með hörðum aðgerðum sem nær ómögulegt er að réttlæta. Alvarleg veikindi eru ekki grasserandi í landinu vegna Covid og fólk er ekki að deyja úr sjúkdómnum.

Það er ekki réttlætanlegt að halda svo rígfast í íþyngjandi aðgerðir.

Tilboðið

Píratar buðust til þess á dögunum að styðja minnihlutastjórn Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar.

Þetta gerði vitanlega mikla lukku hjá Samfylkingunni. Á flestum öðrum bæjum er litið á tilboðið sem brandara.

Píratar eru þekktir fyrir að stunda upphrópunarstjórnmál og við blasir að stuðningur þeirra myndi aldrei halda, nema í einhverja mánuði.

Þetta vita formenn Vinstri grænna og Framsóknarflokks, sem og meginþorri þjóðarinnar.

Sum tilboð eru einfaldlega ekki svara verð.