Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku lýsir því yfir í blaðagrein í Fréttblaðinu 10. júlí sl. að fullyrðing mín um að fögru jarðhitasvæði í Sogunum við Trölladyngju hafi verið rústað án nokkurs samfélagsávinnings sé alröng. Hann upplýsir jafnframt að rannsóknin hafi gefið mikilvægar upplýsingar og að svæðið lofi góðu fyrir framtíðar nýtingu. Hins vegar hafi svæðið ekki komist upp í nýtingarflokk í rammaáætlun og því sé allt stopp. Gott væri að fá skýringu á því af hverju fyrirtækið hleypur af stað með jafn umfangsmiklar rannsóknir sem valda miklum skaða á afar fögru svæði á sama tíma og verið er að skoða hvort svæðið sé almennt talið hæft til nýtingar á faglega mælikvarða rammaáætlunar.

Svo lesandinn geti sjálfur dæmt um eyðilegginu HS orku á svæðinu birst hér loftmynd sem sýnir hvernig vegur og borpallur hafa spillt því sem áður var heildsteypt litríkt jarðhitasvæði eftirsótt til útvistar og upplifunar. Vegur hefur verið lagður meðfram fögrum læk og stórt borsvæði byggt inn í grösuga hlíð.

Ellert Grétarsson

Grein forstjórans er annars upplýsandi fagurgali um ágæti síns fyrirtækis. Takk fyrir það. Hins vegar kemur forstjórinn ekki að meginefni minnar greinar, sem er gagnrýni á áform dótturfyrirtækisins VesturVerks sem ráðgerir að spilla stórum víðernum við Drangajökul vegna rannsóknarstarfa þar. Rannsóknir fyrir vatnsaflsvirkjanir hafa fram að þessu farið fram án svo stórkallalegra framkvæmda af því tagi sem áformaðar eru á Ströndum. Eðli málsins samkvæmt geta jú rannsóknir leitt til þess að ekkert verði úr framkvæmdum og því er mikilvægt að skilja sem minnst spor eftir sig. Enda segir í umsókn VesturVerks um framkvæmdaleyfi „Niðurstöður þessara rannsókna leggja grunn að ákvarðanatöku um framhald verkefnisins.“ Svo virðist sem VesturVerk hyggist ekki fara að ákvæðum í rannsóknarleyfi um að lágmarka beri umhverfisáhrif rannsókna. HS Orka með VesturVerk sem sitt verkfæri virðist þvert á móti ætla að hámarka skaðann, eins og tilfellið var í Trölladyngju árið 2006. Lof á ágæti eigins fyrirtækis eru ekki efnisleg andsvör við þessari gagnrýni Landverndar.

Höfundur er formaður Landverndar.