Kennarar við hjúkrunarfræðideild hafa sett sér það markmið að bjóða upp á framúrskarandi nám í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum sem mætir alþjóðlegum kröfum og þjónar íslensku samfélagi.

Nám við hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands raðast í 100.-150. sæti á lista um gæði náms í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum á heimsvísu samkvæmt flokkun Shanghai Academic Ranking of World Universities (ARWU) (shanghairanking.com/index.html). Af greinum við Háskóla Íslands hefur nám við deildina náð einna hæst á þeim lista.

Nám í hjúkrunarfræði hefur verið eftirsótt, enda er hjúkrunarstarfið krefjandi og fjölbreytt og námið felur í sér mikla möguleika að því loknu. Gæði námsins, fræðilegar og klínískar kröfur, eru vel varin með íslenskum lögum (reglugerð 512/2013) og tilskipun Evrópusambandsins (2005/36/EB) um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Haustið 2019 kepptu rúmlega 300 nemendur um samtals 175 námspláss við báða háskólana, 120 pláss við Háskóla Íslands (að ári verða þau 130) og 55 við Háskólann á Akureyri.

Nú á vormisseri sitja tæplega 60 nemendur námskeið við hjúkrunarfræðideild HÍ til að uppfylla skilyrði til að geta sótt um nám í hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf. Skilyrðin eru meðal annars að umsækjendur hafi lokið 40 einingum í undirstöðugreinum hjúkrunar, það er aðferðafræði/tölfræði, félagsfræði, sálfræði og líffræðigreinum.

Í Evróputilskipuninni stendur meðal annars að klínísk þjálfun skuli fara fram á sjúkrahúsum, í heilsugæslu eða á öðrum vettvangi þar sem nemandinn á bein samskipti við sjúklinga. Á vettvangi lærir hann í samstarfi við aðra að skipuleggja, veita og meta heildstæða hjúkrun með hliðsjón af þeirri þekkingu og hæfni sem hann hefur öðlast í fræðilegu námi.

Klíníska kennslan er á ábyrgð hjúkrunarkennara og er veitt í samstarfi við og með aðstoð hjúkrunarfræðinga á vettvangi. Nemandinn skal ekki einungis læra að vinna í teymi heldur jafnframt að stýra teyminu og skipuleggja hjúkrunarmeðferð, þar með talið heilbrigðisfræðslu fyrir einstaklinga og hópa.

Þá stendur í tilskipuninni að nemendur skuli fá klíníska kennslu í hjúkrun á ýmsum sviðum hjúkrunar, meðal annars bráðahjúkrun, nýbura- og barnahjúkrun, mæðravernd, heilsugæslu, hjúkrun sjúklinga sem fara í almennar eða sérhæfðar skurðaðgerðir og sjúklinga sem þarfnast almennrar eða sérhæfðrar hjúkrunar vegna sjúkdóma sinna.

Skipulag náms í hjúkrunarfræði tekur mið af ofangreindu. Það sem takmarkar fjölda nemenda er námspláss og þá sérstaklega á þeim vettvangi sem nefndur er að ofan. Hjúkrunarfræðideild hefur samstarf og samning um klínísk námspláss við Landspítala gegnum Háskóla Íslands og allar ákvarðanir um nemendafjölda eru teknar í samráði við spítalann. Auk þess eru samningar eða samstarf um klínísk námspláss við heilsugæslustöðvar og hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu og á öllum heilbrigðisstofnunum landsins fyrir t.d. heimahjúkrun.

Klíníska námið dreifist yfir allan veturinn en prófatímabil og upphaf missera eru þó minna nýtt til klínískrar kennslu. Tímann yfir hásumarið er lítið hægt að nýta í klínískt nám sökum sumarleyfa starfsmanna og þar með vöntunar á klínískum kennurum. Á þessum tímabilum er þó rými og vilji samstarfsstofnana er til að taka á móti 20 nemendum í nýju námsleiðina.

Ljóst er hins vegar að til þess að nemendur öðlist þá klínísku færni sem nútímasamfélag krefst þurfa þeir miklar og góðar leiðbeiningar á vettvangi. Sem kallar aftur á fullnægjandi mönnun hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum til að sinna klínískri kennslu.

Hjúkrunarfræðideild er undirfjármögnuð. Í deildinni eru nú 773 nemendur, stöðugildi fastráðinna kennara eru 24 auk þess sem hópur fólks frá öðrum deildum Heilbrigðisvísindasviðs og víðar í Háskóla Íslands og frá samstarfsstofnunum koma að kennslunni. Deildin hefur þó aldrei skorast undan því að leita allra leiða til að fjölga nemendum og taka við raunhæfum verkefnum sem skipta máli fyrir samfélagið.