Ef þú rekur fyrirtæki þá ber þér samkvæmt lögum að skila inn ársreikningum einu sinni á ári. Nú hefði maður haldið að þetta þætti sjálfsagt mál en reyndin var að ótrúlegur trassaskapur viðgengst í þessu máli og að endingu ákvað hið opinbera að sekta þau fyrirtæki sem ekki skiluðu inn ársreikningi. Og viti menn – skil ársreikninga stórbötnuðu! Þegar allt annað þraut reyndist refsivöndur hins opinbera hafa mikið vægi.

Fyrir tveimur árum missti hið opinbera einnig þolinmæði gagnvart ökumönnum sem töluðu í síma eða ákváðu að keyra inn í sumarið á nagladekkjum. Í báðum tilfellum var sekt hækkuð umtalsvert og þarf ökumaður sem er nappaður á nagladekkjum eftir 15. apríl að greiða háa sekt.

En árum saman hafa margir hundsað lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, oftast á þann veg að það hallar á konur. Og ástæðan er ekki einhver ómöguleiki, menn einfaldlega komast upp með lögbrot á hverjum einasta stjórnarfundi. Gefinn er skítur í lögin því vitað er að ekkert verður gert – en nagladekkjunum er skipt út árlega til að forðast sekt. Þannig má draga þá ályktun að af hálfu hins opinbera þyki notkun nagladekkja að sumri til mun alvarlegri yfirsjón, en að tryggja að kraftar bæði karla og kvenna séu nýttir til jafns í stjórnum fyrirtækja.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er jafnframt ráðherra jafnréttismála. Það þarf að negla kynjakvótann á sama hátt og nagladekkin. Ef refsivöndur er það sem þarf, sem er með ólíkindum – þá upp með hann.

Koma svo Katrín!