Lífseigasta bábilja íslenskrar þjóðmála­umræðu fjallar um mikilvægi þess að gjaldmiðillinn sem hér á landi er notaður til heimabrúks geti sveiflast í anda óreglunnar í efnahagsmálum. Landsmenn þurfi óstöðuga mynt.

Raunin er auðvitað sú að krónan hefur ekki einasta tapað trúverðugleika sínum í huga allra annarra en einstaka eyjarskeggja sem neita að yfirgefa Sumarhúsin á heiðum uppi, heldur hefur hún margfaldlega tapað verðgildi sínu frá því hún kom til sögunnar fyrir einni öld. Þess utan hefur þurft að skera undan henni eins og raunin varð fyrir röskum fjörutíu árum.

Og það var kallað því ljúfsára nafni myntbreyting.

Hundrað gamlar krónur urðu að einni krónu.

En það er auðvitað ekki myntbreyting. Það er gjaldfelling. Enn eitt arðránið.

Og þar er komin saga krónunnar. Hún er óreglumaðurinn á heimilinu. Hún er ofbeldismaðurinn í atvinnulífinu. Hún sveiflast án fyrirsjáanleika sem gerir alla áætlanagerð að engu, jafnt í heimahúsum og á vinnustöðum.

Og eftir situr meðvirk þjóð í moldarkofa sinna hugsana.

Grunnurinn að traustum efnahag er stöðugur gjaldmiðill. Það liggja engin Nóbelsverðlaun að baki þeirri hagfræði, heldur skynsemi.

Traustur gjaldmiðill er ein helsta forsenda lágra vaxta. Og lágir vextir eru mikilvægasta hreyfiaflið í hagvaxtardrifnum hagkerfum.

Það eru þeir sem þurfa lán og þeir sem taka lán sem framkvæma.

Hinir safna sjóðum sem horfa til hárra vaxta.

Það er af þessum sökum sem atvinnurekstur á Íslandi er einstaklega óaðlaðandi í huga stórra og smárra fyrirtækja úti í heimi. Ótryggt vaxta­umhverfi og endalausar sveiflur á genginu eru beinlínis fráhrindandi.

Þess vegna þrífst fákeppnin á Íslandi. Það á við um banka. Það á við um tryggingafélög. Það á við um allan samkeppnisrekstur á Íslandi.

Eða sér er nú hver smæðarhagkvæmnin.

Refsivistin í íslenska krónuhagkerfinu hefur verið lífstíðardómur. Á bak við rimlana húkir þjóðin í hærra verðlagi en nokkrir aðrir Evrópubúar geta sætt sig við.

Jafnvel okkar næstu nágrannar hrista höfuðið. Færeyingar hafa búið við fast gengi í áratugi, enda eru þeir bundnir evrunni í gegnum danska krónu. Og eru þeir þó álíka lítil eyja úti í miðju ballarhafi sem hefur veðjað á sjávarútveg og landbúnað frá því elstu menn muna eftir.

Jafnvel þeir trúa ekki á sveiflurnar.

Það er að vonum að æ fleiri Íslendingar átta sig á að við þurfum á raunverulegri myntbreytingu að halda. Hlutverki þolendanna við ysta haf er nefnilega lokið.