Þjóð­kunn eru um­mæli ó­nefnds manns frá því á árum áður þegar Kára­hnjúka­virkjun var í smíðum, að hann gæti ekki sam­sinnt þeim um­mælum stjórn­mála­manna sem sætu að völdum að ör­æfin væru best komin undir vatni.

Enn frægari er á­drepa annars manns í miðri mót­mæla­öldunni gagn­vart vega­lagningu í Gálga­hrauni á Álfta­nesi að hann vildi ekki vera partur af þjóð sem hand­tekur Ómar Ragnars­son.

Og nú hefur stór hluti þjóðarinnar gefið enn eina um­sögn sína í þessa veru, en hann vill ekki taka þátt í sam­fé­lagi sem fangelsar fatlaðan mann í skjóli nætur og hrifsar hann úr hjóla­stól sínum áður en honum er troðið inn í lög­reglu­bíl – og situr auk þess um flótta­börn í skólum þeirra.

En þetta er myndin af okkur, sú nýjasta, og sýnir um­fram allt hvað vald­stjórnin er til­búin að leggja á lög­reglu­menn þessa lands svo laganna hljóðan hafi fram­gang.

Í grunninn snýst þetta mál þó ekki um lög og reglur. Það snýst um fram­kvæmdina. Og öllu fremur um ó­mann­úð­lega fram­komu gagn­vart fólki sem leitað hefur hér skjóls vegna reglu­bundinna brota á mann­réttindum þess í heima­landinu.

Stórum hluta lands­manna sárnar hvernig hér var haldið á málum. Og það sem meira er, fólk skammast sín fyrir þessa mynd sem situr eftir í kolli þess og mun ekki hverfa þaðan á næstu árum. Hún birtir nefni­lega ekki hand­töku, heldur lög­reglu­ræði og of­beldi. Fyrir það eru mann­eskjur þessa lands að fyrir­verða sig og bera kinn­roða fyrir.

Einna at­hyglis­verðast – og ef til vill er eðli­legra að segja, einna undar­legast – er að þessi ljóta mynd úr núlíðandi Ís­lands­sögu gerist á valda­tíma Vinstri grænna, án þess svo mikið sem sá rót­tæki flokkur, að sögn, taki sig saman í and­litinu og for­dæmi að­gerðirnar. En það á bara að skoða þær, velta vöngum yfir þeim, at­huga hvort setja þurfi út á verk­ferla, eins og það heitir á undan­haldinu í þessu al­var­lega máli.

Aug­ljóst er að flokknum er meira annt um stjórn­mála­sam­band sitt við Sjálf­stæðis­flokkinn en þau gömlu – og, að maður hélt, grónu gildi sín, að mann­úðin væri allri pólitík hans hugum­prúðari. Fyrir vikið birtist nú hin myndin sem situr eftir í öllu þessu máli.

En það er myndin af for­sætis­ráð­herra landsins sem er á flótta í einu al­var­legasta úr­lausnar­efni sem þjóðir heimsins takast nú á við.