Góð ímynd er gríðarlega mikilvæg í fyrirtækjarekstri og þegar hún er illa löskuð þá er skiljanlegt að gripið sé til ráða til að rétta hana við. Í slíkum aðgerðum er viturlegt að hafa yfirvegun og skynsemi með í för. Ákveðna eiginleika er þó ekki hægt að kaupa, sama hversu mikla fjármuni menn eiga. Vissulega er hægt að ráða til sín ótal ráðgjafa sem fá það verkefni að lappa upp á ímyndina og borga þeim ansi vel fyrir, en það er samt engin trygging fyrir því að vel takist til.

Forsvarsmenn Samherja hafa verið sakaðir um lögbrot og rannsókn er í gangi. Allt frá því þessar ásakanir komu fram hefur vörn Samherja í því máli verið ótrúverðug og meðal annars falist í því að benda á einstaklinga sem sagt er að mistök hafi verið að treysta. Gremja forsvarsmanna Samherja í garð RÚV hefur ekki farið framhjá landsmönnum og þar hefur Helga Seljan verið stillt upp sem helsta óvininum.

Í myndbandi sem nýlega var birt á YouTube-rás Samherja er því haldið fram að Helgi hafi falsað gögn og að skýrsla, sem Kastljóssþáttur um rannsókn Seðlabankans á Samherja byggði meðal annars á, hafi aldrei verið til. Myndbandið var blygðunarlaus árás á fréttamanninn Helga Seljan, en þar átti að afhjúpa hann sem siðleysingja og lygara.

Einhver af fjölmörgum ráðgjöfum Samherja hefði átt að vara við leið sem var fyrirfram dæmd til að mistakast. Aðgerðin „Skjótum sendiboðann“ er alþekkt en flestir sjá í gegnum hana. Velta má fyrir sér hvað hafi orðið til þess að þessi leið var valin. Hún ber vott um sambland af taugaveiklun, hroka og veruleikafirringu. Samherji mátti ekki við frekari skaða á ímynd sinni. Ímyndin var reyndar orðin svo stórsködduð að það var erfitt að ímynda sér að hún gæti orðið verri. Samt er hún orðin það.

Myndband Samherja er svo ósvífið að það minnir helst á árásir erlendra einræðisstjórna á fjölmiðla í eigin landi. Hópur fólks hlýtur að hafa tekið ákvörðun um gerð þessa myndbands í þeirri trú að það væri sterkt innlegg í varnarbaráttu fyrirtækisins. Það lýsir óhuggulegum hugsunarhætti.

Þegar forsvarsmenn fyrirtækis eru bornir þungum sökum þá er eðlilegt að þeir bregðist við. Annað væri undarlegt. Viðbrögð Samherjamanna hafa hins vegar verið vond. Þeir hafa fengið ótal tækifæri til að skýra mál sitt en reiðin og heiftin glepur þeim sýn. Í stöðu, sem er vissulega mjög þröng, en býður samt upp á ýmsa möguleika, hafa þeir valið verstu leiðina: Árásir á fjölmiðla og blaðamenn.

„Samherji“ er fallegt orð. Því miður hefur fegurð þess stórlega fallið í hugum margra Íslendinga af því þeir setja orðið í samhengi við fyrirtæki sem þeir hafa ekki lengur trú á og tengja við spillingu. Enginn ímyndarsérfræðingur er líklegur til að geta breytt því, hversu öflugur sem hann annars er.