Eitt sögufrægasta hús Reykvíkinga hefur verið í útlegð. Það var flutt í Árbæjarsafn fyrir rúmri hálfri öld til þess að rýma fyrir tólf bílastæðum. En tímarnir hafa breyst og húsið þarf að komast aftur heim.

Þetta er Dillonshús sem reist var á horni Túngötu og Suðurgötu 1835 fyrir Sire Ottesen og dóttur hennar Henriettu Dillon. Húsið var reist af ást en var fórnað á altari blikkbeljunnar. Útlegðardómurinn var réttlættur með því að húsið væri vettvangur síðari tíma fólskuverks sem geðsjúkur maður beitti ástvini sína.

Sire, Sigríður Elísabet Þorkelsdóttir Bergmann, var fædd 1799 í Danmörku og eyddi þar æskuárunum áður en hún fluttist með foreldrunum til Reykjavíkur. Æskan var ekki löng á þessum tíma og aðeins fjórtán ára giftist hún Lárusi Ottesen kaupmanni. Það varð ekki farsælt hjónaband og fjórum árum síðar skildu þau. Næstu árin vann Sire fyrir sér við þjónustustörf. Hún var „húsmóðir“ í Klúbbnum svokallaða sem þá stóð við enda Aðalstrætis í suðri þar sem Herkastalinn gamli stendur nú. Klúbburinn var samkomustaður heldri borgara þar sem þeir drukku púns, svældu vindla og léku ballskák.

Sire lifði lífi sínu frjáls og óþvinguð af illu umtali og stífum gildum samfélagsins, tók sér ástmenn eftir þörfum og eignaðist tvö börn í lausaleik en hvorugt þeirra komst til manns. Fágætt hefur verið í Reykjavík í upphafi 19. aldar að kona léti sér fátt um finnast þrátt fyrir slúður, skömmun og hveljusog siðapostula. „Hún var frjálsleg eins og drottning, samboðin hverjum konungbornum tignarmanni,“ skrifaði Tómas skáld Guðmundsson um Sire.

Sire var 35 ára þegar straumhvörf urðu í lífi hennar. Þá kom ungur breskur aðalsmaður, Arthur Edmund Denis Dillon, síðar 16. vísigreifi Dillons-ættarinnar, til Íslands til landkönnunar og bókaskrifa. Arthur var aðeins 22 ára en þrátt fyrir aldursmun kolféll hann fyrir hinni glæsilegu maddömu Ottesen. Ást þeirra bar ávöxt og síðar fæddist þeim dóttirin Henríetta Dillon, skírð í höfuðið á móður Arthurs. Hann var staðráðinn í að giftast henni og setjast að á Íslandi en leyfi þurfti fyrir ráðahagnum sem íslensk stjórnvöld treystu sér ekki til að veita og vísuðu málinu til danska kansellísins. Þaðan barst hins vegar synjun og voru forsendurnar svo veikar að kansellístíllinn gat ekki leynt þversögnunum. Er freistandi að álykta að hin vellauðuga og áhrifaríka Dillonsfjölskylda í Englandi hafi beitt sér gegn ráðahagnum, en fyrir utan stéttamun var Dillon kaþólikki. Dillon fór af landi brott eftir að eldri bróðir hans hafði komið til landsins til að telja honum hughvarf, væntanlega bæði með fortölum og arfleysishótunum.

Þótt ekki yrði af ráðahagnum ætlaði hann sér ekki að skilja Sire eftir slippa og snauða. Um það leyti sem hún varð léttari var verið að reka smiðshöggið á byggingu hússins yfir móður og dóttur. Síðar kom á daginn að hann hafði ætlað þeim arf eftir sig sem var svo rausnarlegur að hann jafngilti margföldu útsvari allra Reykvíkinga. Hins vegar fór svo að Dillon lifði bæði Sire og Henríettu.

Næstu árin var Sire með veitinga- og gistirekstur í Dillonshúsi í samkeppni við Klúbbinn. Gistu þar margir andans menn til lengri og skemmri tíma, meðal annars Jónas Hallgrímsson. Hún hélt þar einnig svonefnd píuböll sem voru dansleikir sérstaklega ætlaðir vinnukonum á meðan heldri dömur bæjarins stigu sporin áfram í Klúbbnum. Þegar Henríetta fermdist hætti Sire veitingarekstri en leigði húsið að stórum hluta út. Þar hófst meðal annars rekstur fyrsta kvennaskólans á Íslandi undir stjórn Ágústu og Þóru Johnson en síðar var sérstakt húsnæði byggt undir þann rekstur við Austurvöll. Sire lést 1878 á 79. aldursári.

Árið 1960 var ákveðið að flytja húsið burt af sínum stað. Nokkrum árum áður eða 1952 varð sá hörmulegi atburður í húsinu að geðsjúkur lyfsali myrti eiginkonu sína og þrjú börn með eitri og svipti svo sjálfan sig lífi. Það vekur eftirtekt að þegar fjölskyldan var borin til grafar birtist aðeins ein minningargrein, um gerandann þar sem rétt þótti að halda því til haga að þessi bankastjórasonur hefði verið ýmsum góðum kostum gæddur.

Konu og barna er einungis minnst í framhjáhlaupi. Vel má vera að seinni tíma harmsaga hússins hafi haft sitt að segja um að Dillonshús var flutt í hinn nýja almenningsgarð í Árbæjarsafni. En hvort sem húsverndunarsjónarmið eða umhyggja fyrir bílamenningunni voru þyngst á metunum var húsið flutt á brott og ekkert byggt í staðinn. Húsið var eitt þriggja sem fyrst voru í Árbæinn sem þá var nánast út í sveit. Svo mikið er víst að umhyggjan fyrir bílaumferð var mikil á sjöunda áratugnum. Eitt af fyrstu húsunum sem sent var í útlegð handan Elliðaár þótti þrengja of mikið að umferð um Vesturgötu. Og í Morgunblaðinu 1959 var fagnað þeim myndarskap borgaryfirvalda að brátt myndu tólf til fjórtán bílastæði verða til á lóð Dillonshúss.

Dillonshús hefur verið í fyrirtaksvarðveislu í Árbæjarsafni þar sem því hefur verið sýndur sómi. En rétt er að þeirri geymslu ljúki og húsið fái að komast á sinn upprunalega stað sem allra fyrst. Tímarnir hafa breyst og mennirnir (vonandi) með. Bílastæðin tólf eru í kallfæri og í samkeppni við rúmgóðan og vistlegan bílastæðakjallara Ráðhússins.

Dillonshús hefur verið sönn höfuðprýði Árbæjarsafns, en afar ósennilegt er að Sire hafi nokkurn tíma komið þangað. Safnið er tímaskekkja nú þegar þétting byggðar er alfa og ómega bæjarstjórnarpólitíkur Reykjavíkur og yrði flutningur þess tákn um nýja tíma. Vonandi yrði flutningurinn aðeins táknrænt upphaf þess að bundinn yrði endir á útlegð sem flestra húsa í Árbæjar-Gúlaginu og þau flutt á sinn upphaflega stað eða að minnsta kosti í túnið heima.

Seinni tíma harmsaga Dillonshúss er ekki rök á móti því að þetta musteri ástarinnar snúi aftur heim. Þvert á móti. Ástæðulaust er að sópa undir teppið þeim hluta sögunnar sem okkur líkar ekki við í dag. Ekki síður ber að heiðra minningu fórnarlamba voðaverka apótekarans sem gat ekki unað konu sinni og börnum lífs þegar hann sjálfur sá ekki framtíð fyrir sjálfan sig fastur í viðjum geðveikinnar.

Dillons-hús var reist rétt þar sem Ingólfur og Hallveig byggðu eitt af fyrstu húsum sínum og er þess minnst á glæsilegu safni. Á þessum litla reit eru rætur Reykjavíkur og örskammt þaðan er Víkurgarður.

Þar á húsið heima til minningar um merka sögu ásta og örlaga og hina frjálshuga Sire Bergmann Ottesen.