Nafnið á Co­vid-19 far­sóttinni er illu heilli orðið úr­elt, því nú má einnig kenna far­sóttina við árin 2020 og 2021. Lík­lega bætist árið 2022 fljót­lega við, ef til vill árið 2023 líka, en vonandi ekki. Ekkert er þó úti­lokað í þeim efnum. Ó­þægi­legt er að hugsa til þess hvernig kín­versk yfir­völd brugðust við árið 2019, þegar veiran kom fyrst upp þar í landi, með af­neitun og leynd sem olli að líkindum mun meiri út­breiðslu en ef gripið hefði verið strax í taumana.

Því miður hafa bólu­setningar ekki skilað þeirri vörn sem vonast var til. Menn skiptast nú í tvö horn. Þeir sem vilja grípa til hertra að­gerða til að vernda Land­spítalann og þeir sem vilja litlar sem engar hömlur. En staðan er því miður sú að ís­lenska þjóðin býr við heil­brigðis­kerfi með eld­gamla og úr sér gengna inn­viði, sem hefur lítið þan­þol. Sum húsa­kynni LSH eru ekki einu sinni mús­held.

Við Ís­lendingar höfum ekki borið gæfu til að hlúa að heil­brigðis­málum okkar eins og eðli­legt hefði verið í vel­megunar­sam­fé­lagi þar sem þjóðar­auður hefur vaxið ríku­lega á síðustu ára­tugum.

Hvað ætli kjós­endur hafi oft grát­beðið um endur­bætur, lof­orð hafa verið gefin, en síðan fæðast bara litlar mýs, í orðsins fyllstu merkingu. Ekki verður nú­verandi vald­höfum einum kennt um, heldur byrjaði þessi hruna­dans fyrir mörgum ára­tugum. Enginn hefur haft pólitískan kjark til þess að segja hingað og ekki lengra. Auð­vitað verður það miklu dýrara fyrir ís­lenska þjóð að rétta þetta kerfi við, heldur en ef við hefðum byggt það upp jafnt og þétt.

Vísinda­menn vonast til þess að Co­vid-veiran muni hætta að stökk­breytast að lokum og breytast í væga kvef­pest, en ó­mögu­legt sé að segja til um hve­nær. Árið 2022 og jafn­vel 2023 gætum við því staðið frammi fyrir stöðugu kapp­hlaupi við stökk­breytingar veirunnar. Smit­sjúk­dóma­læknar eru efins um að þriðja sprautan muni nægja. Ný af­brigði geta því kallað á enn fleiri endur­bólu­setningar.

En góður fréttirnar eru þær að ís­lensk stjórn­völd hafa borið gæfu til þess að hlusta á vísindin þrátt fyrir sí­felldan kryt við ríkis­stjórnar­borðið þar sem Sjálf­stæðis­flokkurinn stendur vörð um „frelsi ein­stak­lingsins“ og at­vinnu­rek­enda, enda er það leiðar­stef í stefnu­skrá hans. Raddir skyn­seminnar hafa sem betur fer haft betur við þetta marg­um­talaða ríkis­stjórnar­borð.