Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um aðgerðaáætlun um máltækni þannig að íslenskan verði gjaldgeng í stafrænum heimi. Alþingi samþykkti þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi vorið 2019. Meginmarkmiðið er að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Tilteknar eru 22 aðgerðir til að ná þessum markmiðum og það er afar ánægjulegt að vinna er hafin við allar aðgerðirnar. Aldrei fyrr hefur jafn umfangsmikil stefna verið mótuð og aðgerðum hrundið í framkvæmd til að auka veg móðurmálsins okkar.

Ákveðið var að styðja við bókaútgáfu á íslensku með 25 prósenta endurgreiðslum á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku. Í kjölfarið hefur barna- og ungbarnabókaútgáfa aukist um 47 prósent.

Unnið er samkvæmt verkáætlun um máltækni fyrir íslensku og fjárfesting ríkissjóðs er rúmlega 1,8 milljarðar. Um er að ræða tímamótavinnu sem mun tryggja að við getum talað við tækin okkar á íslensku.

Til marks um áherslu stjórnvalda um að bæta læsi og styrkja stöðu íslenskrar tungu, hækka framlög í bókasafnssjóð höfunda um 62 prósent.

Verið er að auka vægi íslensku í almennu kennaranámi og í viðmiðunarstundatöflu grunnskólanna. Áhersla er lögð á að örva áhuga á tungumálinu. Það er ánægjulegt að sjá aukna aðsókn í kennaranám, eða um 46 prósent.

Loks rís Hús íslenskunnar. Það mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hér er um að ræða byltingu í aðstöðu stofnunarinnar til að varðveita, rannsaka og miðla menningararfi þeim sem handritin geyma.

Hér eru aðeins nefndar nokkrar aðgerðir sem hefur verið hrint í framkvæmd. Fjöreggið er tungumálið og eitt það fallegasta sem ritað hefur verið um mikilvægi móðurmálsins eru orð Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrum forseta: „Ef íslenskan hverfur tapast þekking og við hættum að vera þjóð.“