Áður en og eftir að dóttir mín fæddist í janúar fyrir um ári síðan fór ég í smá mótþróa þegar allir sögðu mér að hringja um leið og hún fæddist, til að festa dagmömmupláss. Ég og mótþróinn minn fórum því ekki í þetta verkefni fyrr en hún var sex mánaða. Ég fékk pláss í Laugardalnum, hverfinu mínu, eftir nokkur símtöl og smá stress og hafði þar með ekki frekari áhyggjur.

Á Þorláksmessu fékk ég svo slæmar fréttir. Plássið var horfið. Í miklu uppnámi hringdi ég út um allt. Allir vorkenndu mér. Enginn átti pláss. Ég póstaði á netið og var komin hálfa leið á fund með yfirmanni mínum til að tilkynna honum um skjóta uppsögn mína, örskömmu eftir að ég snéri aftur eftir fæðingarorlof. Til að gera langa sögu stutta var vandamálið svo leyst hjá dagforeldrum í Breiðholti.

Í janúar var fæðingarorlofið lengt í tólf mánuði. Félags- og barnamálaráðherra hefur sagt að hann hefði viljað ná lengra í samræðum um að brúa bilið. Því það vita allir af þessu. Það er meira að segja búið að gefa þessu heiti. Að brúa bilið. En aldrei er brúin byggð.

Þetta er auðvitað ekki langt tímabil í ævi barnsins. Og eflaust þola flestir foreldrar aukaálag og rót í nokkra mánuði. Og fólk lætur sig hafa það því það hefur engra annarra kosta völ. Ég ætla núna næstu átta mánuði að keyra barnið mitt í Breiðholt og sækja það. Í það munu fara peningar í bensín eða strætó og tími sem ég hefði getað varið í eitthvað annað, með henni. Það er óumhverfisvænt, óhagkvæmt og óbarnvænt.