Árið 2004 hóf Reykjanesbær að taka á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem í daglegu tali kallast hælisleitendur, og þjónustaði samkvæmt sérstökum samningi við Útlendingastofnun. Þann 1. janúar 2014 kom Reykjavík að borðinu og haustið 2015 Hafnarfjörður. Samkvæmt Útlendingastofnun hafa önnur sveitarfélög ekki sýnt áhuga á að taka þátt þrátt fyrir umleitan. Í Danmörku er lögbundin skylda sveitarfélaga að taka á móti flóttamönnum. Við val á móttökusveitarfélögum er horft til hlutfalls íbúa með erlent ríkisfang og atvinnuástands. Staða þess þarf að vera góð, hlutfall íbúa með erlent ríkisfang sem fyrir eru ekki of hátt og atvinnuástand gott. Sveitarfélög sem á einhvern hátt eiga undir högg að sækja eru ekki talin heppilegur kostur.

Í upphafi tók Reykjanesbær bæði á móti fjölskyldum og einstaklingum, oft einstæðum karlmönnum. Nú þjónustar sveitarfélagið eingöngu fjölskyldur og eru um 70-80 umsækjendur um alþjóðlega vernd á hverjum tíma í þjónustu Reykjanesbæjar á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Fjölskyldurnar búa dreift, börn fá pláss í skólum og foreldrar stuðning ef þarf. Í 99% tilfella gengur þetta vel.

Á síðustu mánuðum hefur Útlendingastofnun upp á sitt eindæmi ákveðið að taka á leigu fjölbýlishús á Ásbrú, einu hverfa Reykjanesbæjar, og flytja þangað um hundrað einstaklinga sem stofnunin sér um að þjónusta. Þeir eru fjarri miðlægri þjónustu Útlendingastofnunar, fá lágmarksþjónustu á staðnum, þurfa eins og aðrir íbúar á Suðurnesjum að bíða vikum saman eftir læknisþjónustu og upplifa sig einangraða. Þessu og ýmsu fleiru hafa þeir mótmælt síðustu daga. Á sama hátt hafa bæjaryfirvöld og íbúar látið í ljós óánægju með þessa framvindu mála. Lausnin hlýtur að felast í að fleiri sveitarfélög axli samfélagslega ábyrgð á sama hátt og Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Reykjavík og þjónusti umsækjendur um alþjóðlega vernd í samstarfi við Útlendingastofnun meðan mál þeirra eru til meðferðar.