Það er verið að skrifa kafla í mannkynssögunni þessar vikurnar sem fjallar um atburði án hliðstæðu, atburði sem hafa víðtæk og trúlega varanleg áhrif á heim allan og á samfélag manna. Við erum rétt að byrja að fóta okkur í þessari nýju veröld mitt í faraldri sem vitað var lengi að mundi koma, það var bara spurning um hvenær. En þessum hamförum er ekki lokið, eða eins og Winston Churchill sagði í miðju stríðinu: „Þetta er ekki endirinn. Ekki einu sinni byrjunin á endinum. En kannski er þetta endirinn á byrjuninni.“

Við fylgjumst með vísindamönnum í beinni útsendingu upplýsa okkur um hvernig atburðum vindur fram. Allir hafa aðeins haft eitt markmið: Að veikjast ekki, að lifa af. Og sjaldan höfum við orðið þess jafn áskynja og nú að enginn er eyland, við þurfum öll á hvert öðru að halda. „Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.“

Heimskreppan 2008 snerist um peninga, þessi um heilsuna. Við höfum verið minnt á að ekkert er dýrmætara en heilsan. Reyndar eru ekki alveg allir þeirrar skoðunar: Bandaríkjaforseti sagði nýlega: „Við verðum að passa upp á peningana, jafnvel þótt það kosti mannslíf.“ En það er ekki hægt að kaupa sig frá hættunni á að veikjast með peningum, við verðum sjálf að taka ábyrgð og sýna samstöðu í verki.

Á sama hátt og við þurfum öll að leggjast á árarnar við að bjarga jörðinni frá tortímingu verðum við að vinna saman að því að koma heimsbyggðinni aftur á lappirnar. Það gæti líka verið hluti af undirbúningi undir næsta faraldur, sem mun koma eins og sóttvarnalæknir hefur sagt, aðeins spurning um hvenær. Þá gildir samstaðan.

En að ástandinu hér heima. Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í 1. maí ávarpi sínu: „Hér verðum við í fullum gangi að skapa ný tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki í matvælaiðnaði, heilbrigðisþjónustu, menntun, tækni og nýsköpun.“ Það er athyglisvert að hún nefnir ekki ferðaþjónustuna og jafnframt að það sé „hvorki gerlegt né æskilegt að leita í sama farið“. Sem er umhugsunarefni í ljósi þess að margir hafa haft orð á því að ferðaþjónustan muni eflast á ný og að fólk muni flykkjast hingað til lands sem aldrei fyrr. Ekki sé spurning um hvort, heldur hvenær þessi atvinnugrein nái vopnum sínum á ný.

Sem er óraunhæft í ljósi þess að ferðaþjónustan var komin í kreppu tveimur árum áður en faraldurinn skall á. Ferðamönnum hafði farið fækkandi, skuldir vaxið um 83% frá 2016 til 2019 á sama tíma og hótelherbergjum fjölgaði úr 7.364 í 10.889 eða um 47%. Það er eins og mönnum hafi gleymst að „what goes up, must come down“.

Í grein í DV í febrúar 2017 „Hótelmergðin í Reykjavík“ segir að 44 hótel hafi verið í Reykjavík, þar af 27 í 101 Reykjavík á sama tíma og 22 þekkt hótelverkefni voru til viðbótar á hinum ýmsu stigum framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu, langflest í Reykjavík. Margir segja að túristavæðingin hafi eyðilagt miðbæinn á vakt núverandi borgarstjórnar. Græðgin náð tangarhaldi á mörgum.

Ferðaþjónustan hefur skilað þjóðarbúinu umtalsverðum fjárhæðum á síðustu árum með jákvæðum áhrifum á efnahag þjóðarinnar. En staðreyndin er sú að þessu blómaskeiði er lokið.

En höfum við gengið veginn til góðs? Höfum við staðið vörð um tunguna okkar og landið okkar? Svari hver fyrir sig.

Væri ekki skynsamlegt að láta mótbyr síðustu vikna verða að meðvindi, huga að tækifærunum, setja ekki öll eggin í sömu körfuna? Að styðja við og efla tæknigreinar og sprotafyrirtæki, nýtingu hreinnar orku, flytja út þekkingu. Efla íslenskan matvælaiðnað. Og jafnframt viðhalda samstöðu og samkennd síðustu vikna. Og kannski ekki síst: tileinka okkur nægjusemi.